Erlent

Fimm og sex og sjö og... svindl?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Líkurnar á því að vinna fyrsta vinning í suðurafríska lottóinu eru einn á móti 42.375.200.
Líkurnar á því að vinna fyrsta vinning í suðurafríska lottóinu eru einn á móti 42.375.200. Unsplash/dylan nolte

Getraunayfirvöld í Suður-Afríku rannsaka nú hvort nokkuð misjafnt hafi átt sér stað þegar lottótölurnar í PowerBall lottóinu þar í landi voru dregnar út á dögunum.

Tölurnar voru 5-6-7-8-9 og bónustalan... jú, 10.

Nokkuð uppþot varð á samfélagsmiðlum í kjölfar útdráttarins og vildu margir meina að það væri ekki séns að þarna hefðu ekki einhver svik átt sér stað.

Þá vakti það enn fremur grunsemdir að 20 voru með allar tölur réttar, sem er afar sjaldgæft.

Aðstandendur lotterísins benda hins vegar á að það sé nokkuð algengt að fólk velji tölur sem koma hver á fætur annarri. Þá eru líkurnar á því að þessar tölur séu dregnar út saman jafnmiklar og hver önnur talnasamsetning.

Hver vinningshafi vann jafnvirði 48 milljóna íslenskra króna en 79 fá annan vinning, þ.e. voru með alla rétta nema bónustöluna.

Hver þeirra fær jafnvirði 53 þúsund íslenskra króna og má leiða líkur að því að margir hafi bölvað því að velja 4 í stað 10.

BBC sagði frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×