Það hljómar kannski skringilega að hvetja fólk til þess að leggja sig ekki 100% fram við vinnu. En skrif Ástralans Tim Dennings gera það þó og hafa vakið athygli.
Hvers vegna?
Jú eflaust vegna þess að það eru svo margir sem þekkja það að vinna alltof mikið. Sumir viðurkenna það, að minnsta kosti með sjálfum sér, að vera vinnualkar og/eða gjarnir á að taka vinnuna fram yfir einkalífið því vinnan er hreinlega svooooo skemmtileg!
En hvað getur gerst ef við vinnum endalaust of mikið?
Kulnun. Neikvæð áhrif á parsambönd eða fjölskyldulíf. Andleysi. Orkuleysi. Vöðvabólga. Fleira?
Umræddur Denning skrifar að öllu jafna um persónulega starfsþróun fólks og frumkvöðla. Hann viðurkennir að vinna sjálfur of mikið og kann of oft ekki að gera skil á milli vinnu, áhugamála og einkalífs.
Það sem hann segist hafa áttað sig á er að það að leggja sig alltaf 100% fram, endar oft þannig að þú nærð ekki markmiðum þínum.
Hvernig má það vera?
Jú. Ef þú ert alltaf á smá yfirsnúning, í áreynslu eða kapphlaupi við tímann, getur þú endað með því að vera með svo marga bolta á lofti að þú nærð ekki að sinna neinu mjög vel en sinnir öllu ágætlega.
Með því að draga aðeins úr áreynslunni og vinna með hugarfarinu „ég legg mig 85% fram,“ slærðu aðeins á kröfunum til sjálfs þíns og ferð að vinna í allt öðru flæði.
Tempóið verður öðruvísi.
Hausinn hættir að vera alltaf á milljón. Einbeitingin verður betri. Vinnan skilvirkari. Því þegar hugurinn róast, vinnum við betur, vöndum okkur meir og erum yfirvegaðari við hverja ákvarðanatöku.
Þá mælir Denning einnig með því að fólk sé duglegra við að taka ekki að sér óþarfa verkefni, þiggja boð sem þeim langar ekkert rosalega að þiggja og muna eftir því að taka sér stuttar pásur yfir daginn.
Skilaboð Denning í stuttu máli: Slakaðu aðeins á!