Enski boltinn

Klopp: Ég fékk gæsahúð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp fagnar sigri með stuðningsmönnum Liverpool í leikslok í gærkvöldi.
Jürgen Klopp fagnar sigri með stuðningsmönnum Liverpool í leikslok í gærkvöldi. Getty/Robbie Jay Barratt

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fagnaði bæði frábærum sigri á Úlfunum og endurkomu áhorfenda á Anfield eftir sigurinn í gærkvöldi.

Tvö þúsund manns máttu mæta á leik Liverpool og Wolves en þetta var fyrsti heimarleikur Liverpool síðan í mars þar sem það voru stuðningsmenn í stúkunni.

Það er ekki hægt að segja annað en endurkoma þeirra hafi haft góð áhrif á Liverpool liðið sem lék mjög vel og vann sannfærandi 4-0 sigur.

„Ég fékk gæsahúð,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn.

„Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast í upphituninni eða þeir þau byrjuðu á ‚You'll Never Walk Alone'. Það hafði verið frábært að fá bara þetta og engan fótboltaleik. Þetta var mjög tilfinningamikil stund eftir tíu mánuði,“ sagði Klopp.

Liverpool lék síðast fyrir framan áhorfendur á Anfield 11. mars síðastliðinn þegar spænska liðið Atletico Madrid sló Liverpool út úr Meistaradeildinni. Þá voru fimmtíu þúsund fleiri áhorfendur en í gærkvöldi.

Jürgen Klopp fór til stuðningsmannanna eftir leikinn og fangaði með þeim eins og hann var vanur.

„Leikurinn og andrúmsloftið. Þetta var svo gaman. Ég gerði mér aldrei grein fyrir því að þetta myndi kalla fram svona góða tilfinningu,“ sagði Klopp. „Ég hafði ekki hugmynd um að tvö þúsund manns gætu búið til svona flott andrúmsloft. Allir sem mættu ættu að vera stoltir.,“ sagði Klopp.

„Þetta byrjaði allt saman í febrúar og við höfum beðið síðan eftir að hlutirnir yrði venjulegir á ný. Ég held að við stundum metum þetta venjulega oft ekki nógu mikið. Þetta snerti mig mikið,“ sagði Klopp

„Úlfarnir komust aldrei inn í leikinn í kvöld og það var út af því hvernig strákarnir spiluðu. Þetta var mjög góð háklassa frammistaða,“ sagði Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×