Enski boltinn

Mourinho segir Klopp og Guardiola komast upp með hluti sem hann kemst ekki upp með

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, gaf það skýrt til kynna að hann vildi að Anthony Taylor bætti fleiri mínútum en fjórum við venjulegan leiktíma gegn West Brom.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, gaf það skýrt til kynna að hann vildi að Anthony Taylor bætti fleiri mínútum en fjórum við venjulegan leiktíma gegn West Brom. getty/Martin Rickett

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, fór mikinn í viðtölum eftir tapið fyrir Liverpool, 2-1, í gær. Hann skaut ekki bara á Jürgen Klopp, stjóra Liverpool, heldur einnig Pep Guardiola, stjóra Manchester City, og sagði að þeir fengju aðra meðferð en hann.

Eftir leikinn á Anfield í gær sagðist Mourinho hafa tjáð Klopp úrslitin hefðu verið ósanngjörn. Portúgalinn lét ekki þar við sitja og kvartaði yfir framkomu Klopps á hliðarlínunni og sagði að hann myndi aldrei komast upp með hana.

„Ég sagði við hann að betra liðið hefði tapað og hann var ósammála. Það er hans skoðun en ef ég haga mér eins og hann á hliðarlínunni, þá væri ég ekki lengi þar. Dómararnir láta hann haga sér svona,“ sagði Mourinho.

Mourinho hélt áfram og beindi athygli sinni að Guardiola og vísaði í atvik í undir lok leiks City og West Brom í fyrradag þar sem spænski stjórinn kvartaði með miklum tilþrifum í fjórða dómaranum Anthony Taylor þegar honum fannst hann ekki bæta nógu miklum uppbótartíma við.

„Viltu taka tímaskiltið af fjórða dómaranum? Af einhverri ástæðu er ég öðruvísi og ég er leiður,“ sagði Mourinho.

Tottenham hefur aðeins fengið eitt stig úr síðustu tveimur leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Næsti deildarleikur liðsins er gegn Leicester City á heimavelli á sunnudaginn.

Spurs er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 25 stig, þremur stigum á eftir toppliði Liverpool.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×