Mar­traðar­byrjun varð United ekki að falli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pogba var í stuði í kvöld.
Pogba var í stuði í kvöld. Peter Powell/Getty

Manchester United vann mikilvægan sigur á botnliði Sheffield United, 3-2, á útivelli í kvöld er liðin mættust á Bramall Lane í Sheffield.

Margir ruku upp stór augu þegar byrjunarlið Man. United var tilkynnt en í markinu var Dean Henderson. David de Gea var á bekknum en Ole Gunnar Solskjær sagði fyrir leikinn að þetta væri fyrirfram ákveðið fyrir þó nokkru síðan.

Það voru einungis liðnar fimm mínútur er David McGoldrick kom Sheffield yfir, einmitt eftir skelfileg mistök Henderson í markinu, sem var allt of lengi að hreinsa boltanum frá marki.

Á 26. mínútu jafnaði Marcus Rashford metin og sjö mínútum síðar voru United komnir yfir eftir frábæra sendingu Paul Pogba. Anthony Martial gat ekki annað en skorað.

United komst svo í enn vænlegri stöðu á 51. mínútu. Eftir frábæra skyndisókn skoraði Marcus Rashford er hann skaut nánast í gegnum Aaron Ramsdale í markinu. Flestir héldu þá að leik væri lokið.

Svo var ekki. David McGoldrick skoraði annað mark sitt og annað mark Sheffield á 87. mínútu og hélt vonum Sheffield á lífi en nær komust heimamenn ekki og mikilvægur sigur United staðreynd.

United er eftir sigurinn í sjötta sætinu með 23 stig en Sheffield er á botninum með eitt stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira