Enski boltinn

Martraðarbyrjun Stóra Sam

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sam Allardyce trúir ekki sínum eigin augum í kvöld.
Sam Allardyce trúir ekki sínum eigin augum í kvöld. Lindsey Parnaby/Getty

Aston Villa er í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-0 sigur á nýliðum WBA er liðin mættust á The Hawthorns í kvöld.

Sam Allardyce stýrði WBA í sínum fyrsta leik eftir að hann var ráðinn til félagsins. Hann tók við nýliðunum af Slaven Bilic sem fékk sparkið í vikunni.

Það voru liðnar fimm mínútur af leiknum er Anwar El-Ghazi kom Villa yfir og ekki skánaði ástandið hjá WBA er Jake Livermore fékk beint rautt spjald á 37. mínútu.

Ollie Watkins virtist vera koma Villa í 2-0 á 72. mínútu en VAR dæmdi markið af. Bertrand Traore skoraði þó annað markið á 84. mínútu og á 88. mínútu skoraði El-Ghazi, annað mark sitt og þriðja mark Villa, úr vítaspyrnu.

Aston Villa er í níunda sæti deildarinnar með 22 stig eftir tólf leiki. WBA er í næst neðsta sæti deildarinnar með sjö stig, þremur stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×