Enski boltinn

Aston Villa fór illa með Crystal Palace manni færri

Ísak Hallmundarson skrifar
Leikmenn Aston Villa voru magnaðir í dag.
Leikmenn Aston Villa voru magnaðir í dag. getty/Shaun Botterill

Aston Villa vann sannfærandi 3-0 sigur á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Heimamenn í Villa stjórnuðu leiknum allan tímann og voru mun betri þrátt fyrir að vera manni færri allan seinni hálfleik en Tyrone Mings fékk reisupassann undir lok fyrri hálfleiks.

Bertrand Traoré kom Villa yfir á 5. mínútu leiksins þegar hann fylgdi á eftir skoti Ollie Watkins. 

Villa skapaði sér mun fleiri færi og hefði átt að vera tveimur til þremur mörkum yfir þegar Tyrone Mings fékk að líta rauða spjaldið. Það kom ekki að sök að vera manni færri, Kortney Hause tvöfaldaði forystu Aston Villa á 66. mínútu og tíu mínútum síðar skoraði Anwar El-Ghazi stórglæsilegt mark. 

3-0 sigur Aston Villa staðreynd og hefðu mörkin getað verið mun fleiri. Villa hefur núna haldið marki sínu hreinu í fjórum leikjum í röð.

Aston Villa er núna í sjötta sæti með 25 stig, en hefur spilað einum til tveimur leikjum minna en öll hin liðin í deildinni. 

Á sama tíma gerðu Fulham og Southampton markalaust jafntefli. Fulham er í 18. sæti með ellefu stig, en þetta var fjórða jafntefli liðsins í röð. Southampton er á meðan í 8. sæti með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×