Enski boltinn

Stóri Sam hefur áhyggjur af heilsu sinni í faraldrinum og vill hlé á deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion, grettir sig yfir spilamennsku sinna manna á móti Leeds United í gærkvöldi.
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion, grettir sig yfir spilamennsku sinna manna á móti Leeds United í gærkvöldi. AP/Shaun Botteril

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion, var áhyggjufullur eftir leik liðsins í gærkvöldi, ekki bara vegna þess að liði steinlá 5-0 á móti Leeds heldur einnig vegna stöðunnar á kórónuveirufaraldrinum i Bretlandi.

Allardyce sagði eftir skellinn í gær að enska úrvalsdeildin þurfi á hlé að halda en aldrei áður hafa fleiri leikmenn í ensku úrvalsdeildinni fengið kórónuveiruna í einni og sömu vikunni.

Fresta þurfti leik Manchester City vegna hópsmits og það gæti einnig verið komið upp hópsmit hjá Fulham liðinu. Alls greindust átján manns í kringum ensku úrvalsdeildina samkvæmt nýjustu tölum.

„Ég hef miklar ahyggjur, bæði vegna heilsu minnar en einnig vegna fótboltans í heild sinni,“ sagði Sam Allardyce.

Sam Allardyce hafði í leiknum á undan náð í stig á móti Englandsmeisturum Liverpool á Anfield en hans menn voru heldur betur skotnir niður á jörðina í gær.

Allardyce segir það rétta í stöðunni að gera nokkra vikna hlé á deildinni á meðan Englendingar nái einhverjum tökum á útbreiðslu veirunnar en það hefur verið lítið um það að undanförnu þar sem hvert smitmetið á öðru hefur fallið.

„Öryggi allra er mikilvægara en allt annað. Þegar ég hlusta á fréttirnar um að þetta afbrigði veirunnar smitist hraðar en hinn upphaflegi vírus þá sé ég að það rétta í stöðunni er að gera hlé á keppninni,“ sagði Allardyce.

„Ég er orðinn 66 ára gamall og það síðasta sem ég vil lenda í á þessum aldri er að fá Covid,“ sagði Allardyce og bætti við:

„Eins mikið og við erum prófaðir þá er eins og veiran sé að leynast meðal okkar. Það skiptir ekki máli hversu mikið við reynum eða hve oft við erum prófaðir, að við séum með grímu eða sótthreinsum hendur okkar. Við erum erum samt að sjá fullt af smitum út um allt landið,“ sagði Allardyce.

„Ef það hjálpar að gera hlé þá eigum við að gera það og tímabilið verði þá bara aðeins lengra þegar við erum komin í gegnum þetta,“ sagði Sam Allardyce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×