Enski boltinn

Sannfærðir um að þetta þýði að Cristiano Ronaldo sé á leið heim til Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar marki á síðasta tímabili sínu með Manchester United.
Cristiano Ronaldo fagnar marki á síðasta tímabili sínu með Manchester United. EPA/MAGI HAROUN

Draumur stuðningsmanna Manchester United um að Cristiano Ronaldo komi aftur til félagsins er nú aðeins líklegri til að rætast í augum sumra þeirra.

Cristiano Ronaldo spilaði í sex tímabil með Manchester United og varð á þeim tíma að einum allra besta knattspyrnumanni heims en hann kom til enska félagsins sem táningur.

Ronaldo er með 255 milljón fylgjendur á Instagram og það er öllum ljóst að allt tengt Instagram síðu hans er útpælt.

Það er einmitt þess vegna sem stuðningsmenn United tóku kipp þegar Cristiano Ronaldo ákvað að bætast í hóp fylgjenda á Instagram síðu Manchester United.

Þetta er í fyrsta sinn sem Cristiano Ronaldo er fylgjandi á Instagram síðu Manchester United og varla er þessi tímasetning eintóm tilviljun.

Sumir stuðningsmenn eru sannfærðir um að þetta þýði að Cristiano Ronaldo sé á leið heim til Manchester United.

„Cristiano Ronaldo var að bætast í hóp fylgjenda Manchester United á Instagram. Hann er ekki að fylgjast með síðu Real Madrid ykkur að vita,“ skrifaði einn þessara stuðningsmanna á Twitter.

„Cristiano Ronaldo var að fylgja Manchester United á Instagram. Fáum hann heim,“ skrifaði annars.

Það eru ýmsar sögusagnir í gangi um Juventus en ítölsku meistararnir eru í fjárhagsvandræðum og það er dýrt að reka leikmann eins og Cristiano Ronaldo.

Ronaldo fær 28 milljónir punda í árslaun eða tæpa fimm milljarða íslenskra króna. Juventus gæti bætt peningastöðu sína með því að selja hann og losna við að greiða þessi ofurlaun.

Ronaldo heldur vissulega upp á 36 ára afmælið sitt í næsta mánuði en hann er enginn venjulegur leikmaður sem sést á því að hann er með nítján mörk í nítján leikjum með Juventus á þessu tímabili.

Á meðan ekkert annað er staðfest þá lifa stuðningsmenn Manchester United í voninni um að sjá hann aftur í treyju Manchester United og þá geta lítil atvik eins og þetta styrkt menn í trúnni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×