Enski boltinn

Segir að Benítez taki ekki aftur við Newcastle nema Ashley selji félagið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rafa Benítez er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Newcastle United.
Rafa Benítez er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Newcastle United. getty/Simon Stacpoole

Rafa Benítez tekur ekki aftur við Newcastle United meðan Mike Ashley er eigandi félagsins.

Benítez hætti sem knattspyrnustjóri Dalian Professional í Kína á dögunum og hefur verið orðaður við Newcastle sem hann stýrði á árunum 2016-19. Newcastle hefur gengið bölvanlega að undanförnu og starf Steves Bruce er í hættu.

Spænski fótboltasérfræðingurinn Guillem Balague segir að Benítez snúi ekki aftur til Newcastle nema eigendaskipti verði hjá félaginu.

„Newcastle er ekki möguleiki fyrir Rafa Benítez með þennan eiganda en kannski ef félagið skiptir um eiganda,“ sagði Balague við BBC.

„Rafa ber gríðarlega mikla virðingu fyrir stuðningsmönnunum, félaginu, borginni og honum finnst eins og eigi óklárað verk eftir hjá Newcastle.“

Benítez hefur einnig verið orðaður við Skotlandsmeistara Celtic sem hefur gengið afar illa að undanförnu og Neil Lennon, stjóri liðsins, situr í heitu sæti. Balague segir þó afar ólíklegt að Benítez taki við Celtic og hann ætli að taka sér frí á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×