Enski boltinn

Stjóri Wycombe sagði að Mourinho gæti spilað á tambúrínu í hljómsveitinni sinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho og Gareth Ainsworth þakka hvor öðrum fyrir leikinn.
José Mourinho og Gareth Ainsworth þakka hvor öðrum fyrir leikinn. getty/Tottenham Hotspur FC

Eftir leikinn gegn Tottenham í ensku bikarkeppninni grínaðist Gareth Ainsworth, knattspyrnustjóri Wycombe Wanderers, með að José Mourinho gæti fengið að spila á tambúrínu í hljómsveitinni sinni.

Vel fór á með þeim Ainsworth og Mourinho fyrir og eftir leik Wycombe og Tottenham á Adams Park í gær. Spurs vann leikinn, 1-4.

Auk þess að þjálfa Wycombe er Ainsworth söngvari í hljómsveitinni Cold Blooded Hearts. Eftir leikinn í gær var Ainsworth spurður hvort hann myndi bjóða Mourinho á tónleika með hljómsveitinni þegar samkomutakmörkunum yrði aflétt.

„Algjörlega. Hann sagðist líklega ekki geta sungið en hann gæti eflaust spilað á tambúrínu,“ sagði Ainsworth í léttum dúr.

„Hann er frábær náungi og frábær stjóri. Hann sýndi mér mikla virðingu og ég er auðmjúkur að fá að þjálfa á sama velli og hann.“

Klippa: Stjóri Wycombe ræðir um Mourinho

Hinn hárfagri Ainsworth, sem klæðist jafnan leðurjakka á hliðarlínunni, hefur þjálfað Wycombe síðan 2012 en enginn stjóri í ensku deildakeppninni hefur verið lengur með lið sitt en hann.

Wycombe er á botni ensku B-deildarinnar með fimmtán stig, tíu stigum frá öruggu sæti en á þrjá leiki til góða á liðin fyrir ofan fallsætin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×