Fyrstu vísindamennirnir lentu í Kína þann 6. janúar og var þeim þá meinuð innganga í landið. Viðræður um verkefnið á milli WHO og yfirvalda í Kína höfðu þá staðið yfir í marga mánuði.
Sjá einnig: Sérfræðingar WHO geta hafið rannsókn sína í Wuhan
Verkefnið hefur í raun einkennst af miklum töfum enda er meira en ár síðan veiran greindist fyrst í borginni Wuhan í Kína, þar sem vísindamennirnir eru nú staddir. Samkvæmt áætlun munu þeir vera við störf í borginni í tvær vikur.
Samkvæmt frétt Reuters munu vísindamennirnir heimsækja sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og rannsóknarstofur, auk þess að ræða við embættismenn.
Þá stendur einnig til að heimsækja fiskmarkað þar sem upprunalega var talið að veiran hefði fyrst smitast í menn. Thea Fischer, danskur vísindamaður, sagði fréttaveitunni að sú heimsókn gæti varpað ljósi á hvort sú kenning gæti verið rétt.
Hún sagði einnig að vísindamennirnir ættu nú að hafa aðgang að þeim staðsetningum og persónum sem þeir vildu en verkefnið gæti ekki heppnast án samstarfs yfirvalda í Kína.
Yfirvöld í Kína hafa þó verið gagnrýnd harðlega fyrir að draga lappirnar í upphafi faraldursins og standa í vegi rannsókna á upphafi faraldursins og hvernig nýja kórónuveiran barst yfir í menn.
Sjá einnig: Gagnrýna WHO og Kínverja fyrir hægagang í upphafi faraldursins
Þar að auki hafa yfirvöld í Kína varið töluverðu púðri í að ýta undir kenningar um að veiran hafi ekki smitast fyrst í menn í Kína og hún hafi jafnvel verið þróuð í rannsóknarstofum í Bandaríkjunum.