Erlent

Beita skriðdrekum og byssukúlum í von um að bæla niður mótmælin

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vestræn ríki hafa hvatt herinn til að beita ekki ofbeldi í aðgerðum sínum gegn mótmælendum. 
Vestræn ríki hafa hvatt herinn til að beita ekki ofbeldi í aðgerðum sínum gegn mótmælendum.  Getty/Hkun Lat

Skriðdrekar hafa sést á götum nokkurra borga í Mjanmar í dag þar sem her landsins freistar þess að bæla niður mótmælaöldu sem brotist hefur út í landinu eftir að herinn hrifsaði til sín völdin í byrjun þessa mánaðar. Lokað hefur verið fyrir internetið nær alfarið í allt kvöld en það er ekki í fyrsta sinn sem það hefur verið gert eftir að mótmælin brutust út.

Í Kachin-ríki í norðurhluta landsins eru öryggissveitir hersins sagðar hafa skotið á mótmælendur, sem nú hafa mótmælt valdaráninu í níu daga í röð. Tom Andrews, sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um Mjanmar, hefur sakað herinn um að lýsa yfir stríði á hendur fólkinu í landinu. Segir hann yfirmenn í hernum sýnt merki um örvæntingu og að þeir verði látnir sæta ábyrgð vegna gjörða sinna. BBC greinir frá.

Sendiráð vestrænna ríkja í Mjanmar hafa hvatt herinn til að sýna aðhald. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá Evrópusambandinu, Bretlandi og Bandaríkjunum er herinn hvattur til að forðast ofbeldi. „Við köllum eftir því að öryggissveitir varist að beita ofbeldi gegn mótmælendum, sem eru að mótmæla því að lögmætri ríkisstjórn þeirra hafi verið komið frá völdum,“ segir í yfirlýsingunni.

Mótmælendur krefjast þess meðal annars að Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörnum leiðtoga landsins, verði sleppt úr haldi. Suu Kyi hefur verið í haldi herforingjastjórnarinnar frá 1. febrúar þegar herinn framdi valdarán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×