Fótbolti

Enginn kallaður inn í hópinn fyrir Björn Bergmann strax

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, mun ekki kalla inn leikmann í landsliðshópinn fyrir Björn Bergmann Sigurðarson sem gefur ekki kost á sér í verkefnið.

Framundan eru þrír leikir í undankeppni HM í Katar en um er að ræða fyrsta verkefni liðsins síðan Arnar Þór tók við stjórnartaumunum. Það vakti nokkra athygli að Björn Bergmann, sóknarmaður Molde, skyldi valinn í hópinn og enn meiri athygli þegar fregnir bárust af því í gær að hann gæfi ekki kost á sér í hópinn.

Arnar Þór greindi frá því í útvarpsþætti Fótbolta.net á X977 í dag að hann myndi ekki kalla inn leikmann í hópinn í stað Björns fyrir fyrsta leikinn gegn Þýskalandi en útilokaði ekki að gera það fyrir seinni tvo leikina. 

„Þegar við völdum hópinn vissum við að þetta væri eitt af því sem gæti komið upp á. Við teljum að við séum með nægilega marga framherja fyrir þennan leik gegn Þýskalandi. Svo er líka alltaf möguleiki á því að kalla menn inn, hvort það sem er fyrir leik tvö eða þrjú. Þar að auki getur ýmislegt breyst um helgina, leikmenn gætu meiðst í dag eða á morgun. Akkúrat núna teljum við ekki þörf á að kalla mann inn en það getur breyst,“ sagði Arnar í dag.

Í þættinum útskýrði Arnar einnig ástæðuna á bak við ákvörðun Björns.

„Við vildum fá hann en félög í Noregi geta haldið leikmönnum hjá sér. Við vonuðumst til að Molde myndi gefa okkur færi á að vera með Björn en það var strembið. Á endanum ákvað hann að draga sig úr hópnum. Björn tók þá ákvörðun sjálfur að einbeita sér að sínu félagsliði. Ég skil það bara mjög vel,“ sagði Arnar meðal annars.

Viðtalið í heild sinni er í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Björn Bergmann dregur sig úr landsliðshópnum

Björn Bergmann Sigurðarson hefur dregið sig úr landsliðshópnum sem spilar þrjá leiki í lok mánaðarins í undankeppni HM 2022. Greint var frá þessu á Twitter síðu KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×