Enski boltinn

Neville um Klopp: „Veit ekki af hverju hann er með mig á heilanum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp var ekki sáttur með ummæli Garys Neville um Liverpool og ofurdeildina.
Jürgen Klopp var ekki sáttur með ummæli Garys Neville um Liverpool og ofurdeildina. getty/Lee Smith

Jürgen Klopp gagnrýndi Gary Neville fyrir ummæli hans um Liverpool og ofurdeildina eftir jafnteflið gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í gær. Neville svaraði með því að segja að Klopp væri með hann á heilanum.

Neville hélt mikla eldræðu á Sky Sports á sunnudaginn þar sem hann gagnrýndi Liverpool og Manchester United fyrir aðkomu þeirra að ofurdeildinni umdeildu. Hann minntist á stuðningsmannalag Liverpool, „You'll Never Walk Alone“, sem virtist fara fyrir brjóstið á Klopp.

„Gary Neville talar um „You'll Never Walk Alone“, það ætti allavega að vera bannað, ef ég á að vera hreinskilinn. Við eigum rétt á að syngja þetta lag. Þetta er okkar lag, ekki hans lag. Hann skilur þetta hvort sem er ekki,“ sagði Klopp eftir leikinn á Elland Road í gær.

„Ég vildi að Gary Neville væri einhvern tímann í heita sætinu en ekki alls staðar þar sem peningarnir eru. Hann var hjá Manchester United og er núna hjá Sky Sports þar sem mestu fjármunirnir eru. Ekki gleyma því að við höfum ekkert með þetta [ofurdeildina] að gera. Við erum í sömu stöðu og þið, erum nýbúnir að frétta af þessu og þurfum samt að halda áfram að spila.“

Neville svaraði Klopp í Monday Night Football á Sky Sports og sagðist ekki vita hvað Þjóðverjanum gengi til. Hann væri á hans bandi.

„Af hverju er þetta ekki sanngjarnt? Ég hef móðgað Liverpool nógu oft í gegnum árin en gærdagurinn snerist ekkert um það. Ég veit ekki af hverju hann er með mig á heilanum, ef ég á að segja eins og er,“ sagði Neville.

„Ég veit ekki hvað fór svona í hann. Þetta var ástríðufull málsvörn fyrir fótboltann. Ég varð fyrir mestum vonbrigðum með Liverpool og Manchester United. Ég hef gagnrýnt bæði félög jafn mikið síðasta sólarhringinn.“

Neville bætti við að hann væri mikill aðdáandi Klopps og liðanna hans og hann hefði gert frábæra hluti hjá Liverpool. Eigendur félagsins hefðu hins vegar sett hann í afar erfiða stöðu með því að taka þátt í stofnun ofurdeildinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×