Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Fylkir 0-0 | Tíu Selfyssingar héldu út gegn Fylkiskonum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir byrjaði á varamannabekk Selfyssinga í kvöld.
Hólmfríður Magnúsdóttir byrjaði á varamannabekk Selfyssinga í kvöld. Vísir/Hulda

Selfoss tók á móti Fylki í Pepsi Max deild kvenna í kvöld. Niðurstaðan markalaust jafntefli, en markmaður Selfoss fékk að líta beint rautt spjald þegar um 37 mínútur voru liðnar og heimakonur þurftu því að spila stóran hluta leiksins manni færri.

Gestirnir byrjuðu með látum og strax á þriðju mínútu voru þær búnar að koma boltanum í netið. Selfyssingar töpuðu þá boltanum á hættulegum stað og tvær góðar sendingar innan Fylkisliðsins enduðu með því að Helena Ósk renndi boltanum í autt netið. Heimakonur höfðu þó heppnina með sér því Helena var réttilega dæmd rangstæð.

Það var lítið að frétta næstu mínútur og liðin áttu erfitt með að halda boltanum á lokaþriðjung vallarins. Við fengum lítið sem ekkert af færum og fátt marktækt gerðist.

Á 37. Mínútu dró loksins til tíðinda. Berglind Baldursdóttir átti þá flotta sendingu inn fyrir á Helenu Ósk. Sendingin var örlítið löng og Guðný Geirsdóttir fór í glórulaust úthlaup úr marki Selfyssinga. Guðný var allt of sein í tæklinguna og klippti Helenu niður. Þó að Helena hafi ekki verið á leið í átt að marki var það líklega réttur dómur hjá dómaranum að lyfta rauðu spjaldi.

Fylkiskonur náðu ekki að nýta sér liðsmuninn áður en hálfleikurinn var úti og staðan því markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Seinni hálfleikur var heldur tíðindalítill. Bæði lið náðu að skapa sér nokkur hálffæri, en lítið var um opin marktækifæri.

Það voru gestirnir sem komust næst því að skora í hálfleiknum, en á 69. mínútu fann góð fyrirgjöf þeirra ennið á Bryndísi Örnu Níelsdóttir. Skalli Byrndísar virtist vera á leiðinni yfir, en datt svo niður og lenti ofan á slánni og þaðan aftur fyrir.

Heimakonur voru hættulegri seinustu mínúturnar. Hólmfríður Magnúsdóttir kom inn af varamannabekknum þegar um 15 mínútur voru til leiksloka og skapaðist nokkur hætta af henni.

Ekki tókst liðunum þó að skora og niðurstaðan því nokkuð sanngjarnt markalaust jafntefli.

Af hverju varð jafntefli?

Báðum liðum gekk illa að skapa sér opin marktækifæri í kvöld. Liðin náðu oft á tíðum að halda boltanum vel innan liðsins, en áttu svo í erfiðleikum með að skapa sér eitthvað á seinasta þriðjungi vallarins.

Fylkiskonur naga sig ábyggilega í handabökin að hafa ekki skapað sér meira gegn tíu Selfyssingum.

Hverjir stóðu upp úr?

Helena Ósk Hálfdánardóttir átti ágætis spretti í liði gestanna í kvöld. Hún kom boltanum í netið snemma leiks, en var dæmd rangstæð. Þrátt fyrir það skapaðist oft nokkur hætta af henni þegar hún fékk boltann á vallarhelmingi andstæðinganna.

Benedicte Håland kom inn í markið fyrir Selfyssinga þegar Guðný fékk rautt spjald. Þetta var fyrsti leikur hennar fyrir Selfoss og þrátt fyrir að hún hafi örugglega oft þurft að hafa meira fyrir því að halda hreinu þá þurfti hún að taka á honum stóra sínum fljótlega eftir að hún kom inn á og gerði það vel.

Hvað gekk illa?

Eins og áður segir gekk báðum liðum illa að skapa sér færi. Boltinn fékk að fljóta nokkuð vel, en það vantaði eitthvað hjá báðum liðum til að brjóta ísinn.

Varnarlína Selfoss leit líka oft illa út, og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Þær tóku oft mjög tæpar sendingar sín á milli og voru oft á tíðum nálægt því að tapa boltanum á hættulegum stað.

Hvað gerist næst?

Næstu leikir þessara liða eru bikarleikir. Fylkir fær Keflavík í heimsókn á mánudaginn og á þriðjudaginn fara Selfossstelpur í Vesturbæinn þar sem KR-ingar bíða þeirra.

Alfreð: Svolítið svona ping-pong í fyrri hálfleik.

Alfreð Elías var ánægður með vinnuframlag liðsins í kvöld.vísir/hulda

„Ég er bara ótrúlega ánægður með vinnuframlagið hjá leikmönnunum í kvöld,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfyssinga eftir leikinn í kvöld.

„Við fengum færi til þess að klára þetta á síðustu mínútunum þegar gamla kom inn. Hún svona poppaði þetta aðeins upp og kom með aðra möguleika fyrir okkur. Ég get ekki kvartað yfir einu eða neinu. Þó að maður vilji auðvitað alltaf vinna þá verður maður bara að vera sáttur við það sem maður fær og eitt stig er það í dag.“

Selfyssingar spiluðu manni færri í tæplega 55 mínútur í kvöld. Alfreð hefði viljað sjá liði skapa sér meira fram að rauða spjaldinu.

„Mér fannst við svolítið lengi í gang, bara bæði lið. Þetta var samt ótrúlega skemmtilegur leikur. Hann var opinn og svolítið svona ping-pong í fyrri hálfleik.“

„Í seinni hálfleik fannst mér við stjórna leiknum mjög vel og bara mjög sáttur við það. En jú við hefðum kannski getað gert aðeins betur þegar það var jafnt í liðum.“

Hólmfríður Magnúsdóttir byrjaði á varamannabekk Selfyssinga og kom inn á þegar um 15 mínútur voru eftir. Alfreð var ánægður með þá orku sem hún kom með inn í liðið.

„Fríða skildi allt eftir á vellinum í kvöld. Hún er ekki búin að æfa neitt með okkur og búið að vera erfitt hjá henni í vikunni. En eins og Fríða er þá skilur hún bara allt eftir.“

„Ég held að þetta hafi verið hárrétt ákvörðun. Ég er ánægður með liðið og þetta sýnir að við erum með góða breidd. Markmaðurinn hjá okkur fær rautt og þá kemur næsti inn og stendur sig með stakri prýði þannig að við erum full eftirvæntingar fyrir næsta leik.“

Selfyssingar mæta ÍBV í næsta leik í Pepsi Max deildinni en áður en hann fer fram þá mæta þær KR í Mjólkurbikarnum.

„Mér lýst bara vel á að fara á eyjuna fögru en ég ætla að byrja á að fara á KR völlinn í bikar á þriðjudaginn. Nú er bara að endurheimta vel og fara yfir KR. Þær eigs leik á morgun við FH þannig að ég þarf að fara að kíkja í Hafnarfjörðinn.“

Kjartan: Það vantaði kannski bara gæði á síðasta þriðjung

Kjartan Stefánsson var nokkuð sáttur með stigið í kvöld.

„Þetta var bara hörkuleikur og kannski bara sanngjarnt jafntefli,“ sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis eftir leikinn í kvöld. „Bara eins og síðast þegar þessi lið mættust þá var þetta bara járn í járn.“

Þó að Kjartan tali um sanngjarnt jafntefli þá hefði hann viljað fá meira út úr leiknum í ljósi þess að lið hans var manni fleiri í um 55 mínútur í kvöld.

„Já ég hefði vissulega viljað fá mark í leikinn, það er alveg klárt. Kannski aðeins dapurt að geta ekki sett aðeins meiri pressu á markmanninn.“

„En það var margt jákvætt í okkar spili og sérstaklega okkar varnarleik. Selfyssingarnir eru með hörkulið og eru erfiðar að eiga við.“

Bæði lið áttu erfitt með að skapa sér opin marktækifæri í kvöld. Kjartan segir að gæðin á seinasta þriðjung vallarnins hafi ekki verið nægjanleg.

„Það vantaði kannski bara gæði á síðasta þriðjung. Við vorum stundum að sparka kannski of löngum boltum og nýttumekki breiddina nógu vel.“

„Ég vissi það alveg fyrir leikinn að það var smá skjálfti að fara á gras. Það á ekki að vera nein afsökun en það vantaði kannski bara að þora að senda á milli lína. Það var það sem ég óttaðist og það var dagurinn í dag.“

Fylkir mætir Stjörnunni í næstu umferð Pepsi Max deildarinnar og Kjartan segir að liðið verði að vera vel undirbúið fyrir þann leik.

„Stjarnan er með hörkulið og þó að þær hafi tapað að mér fannst óvænt svona stórt í síðasta leik þá veit ég að þær eru með hrikalega gott lið og verða erfiðar að eiga við.“

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira