Reuters-fréttastofan segir að Mora hafi verið handtekinn síðla kvöld í gær. Hann er sakaður um að grafa undan sjálfstæðis og sjálfsákvörðunarrétti Níkaragva. Yfirvöld hafa beitt umdeildum landráðalögum sem Ortega lét samþykkja í fyrra sem veitir honum rétt til að skilgreina fólk sem svikara og banna þeim að bjóða sig fram til opinbers embættis.
Gagnrýnendur Ortega saka hann um að beita lögunum til að ryðja öllum hugsanlegum keppinautum hans úr vegi fyrir kosningarnar í nóvember.
Mora stýrði fréttastöðinni og vefnum 100% Noticias, einum helsta óháða fjölmiðli Níkaragva, þegar mótmælaalda gegn breytingum Ortega á lífeyriskerfi landsins hófust árið 2018. Hann var handtekinn í desember það ár og sakfelldur fyrir hryðjuverk og hvatningu til ofbeldis og haturs. Mora var veitt sakaruppgjöf í júní árið 2019. Síðan þá hefur hann snúið sér að flokkapólitík.
Nú hafa fimm mögulegir mótframbjóðendur Ortega í forsetakosningunum í nóvember verið handteknir, að Mora meðtöldum. Auk þeirra hafa fjórtán stjórnarandstæðingar verið handteknir á undanförnum vikum, flestir þeirra fyrir meint brot á landráðalögunum.
Fastlega er búist við að Ortega sækist eftir endurkjöri, fjórða kjörtímabilið í röð, í nóvember. Hann lét breyta stjórnarskrá landsins fyrir síðustu kosningar svo að hann gæti boðið sig fram aftur þá. Forsetinn hefur stýrt landinu frá 2007 og á þeim árum hefur hann náð tangarhaldi á flestum valdastofnunum ríksins, þar á meðal öryggissveitum og dómstólum.
Upphaflega komst Ortega til valda í byltingu skæruliða sandínista árið 1979 en hann tapaði í forsetakosningum árið 1990. Eftir að hann komst aftur til valda árið 2007 hefur Ortega, fjölskylda hans og bandamenn verið sakaðir um að maka krókinn á kostnað almennings.
Bandaríkjastjórn lagði viðskiptaþvinganir á dætur Ortega og þrjá bandamenn hans. Hún hefur jafnframt hótað því að skoða frekari refsiaðgerðir verði forsetakosningarnar í haust ekki frjálsar og sanngjarnar.