Eftir því sem kórónuveiran hefur stökkbreyst hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin tekið upp á því að nefna afbrigði hennar eftir bókstöfum í gríska stafrófinu.
Delta-afbrigðið virðist nú vera ríkjandi í heiminum og þarf ekki að líta lengra en til Íslands til þess að finna dæmi um það, en afbrigðið er helsti sökudólgurinn í þeirri bylgju sem nú er í gangi hér á landi í kórónuveirufaraldrinum.
Afbrigðið var fyrst greint á Indlandi og virðist vera það skæðasta hingað til. Í umfjöllun Reuters segir að einn versti eiginleiki delta-afbrigðisins sé hversu bráðsmitandi það virðist vera. Rannsakendur í Kína hafi til að mynda komist að því að þeir sem smitist af afbrigðinu geti innihaldið allt að 1.260 sinnum fleiri veirur í nefkoki samanborið við þá sem smituðust af hinu upprunulega afbrigði veirunnar.
Delta-plús á vöktunarlista á Indlandi
Þá er einnig óttast að delta-afbrigðið muni stökkbreytast enn frekar og raunar hafa indversk yfirvöld sett svokallaða delta plús-afbrigði á sérstakan vöktunarlista, en það afbrigði hefur verið greint í 32 löndum.
Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa þó ekki sett delta plús-afbrigðið á vöktunarlista en í frétt Reuters segir að sérfræðingar telji ekki víst að það afbrigði sé hættulegra en delta-afbrigðið.
Telja lambda-afbrigðið á undanhaldi en fylgjast þó vel með
Fréttir hafa einnig verið sagðar af lambda-afbrigðinu sem fyrst greindist í Perú í desember síðastliðnum. Afbrigðið er á sérstökum vöktunarlista Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, en verið að rannsaka eiginleika þess. Í frétt Reuters segir að rannsóknir á afbrigðinu á rannsóknarstofnum bendi til þess að það innihaldi stökkbreytingar sem geti að einhverju leyti staðist mótefni af völdum bólusetningar.
Í frétt Reuters segir þó að fjölmargir smitsjúkdómasérfræðingar telji að afbrigðið sé á undanhaldi, þannig sé til að mynda minna um að smit af völdum afbrigðisins séu tilkynnt í miðlægan gagnagnagrunn sem heldur utan um smit af völdum afbrigða kórónuveirunnar.
Þá segja sérfræðingar einnig að svo virðist sem að lambda-afbrigðið sé ekki að smitast greiðlegra en önnur afbrigði auk þess sem að bóluefni virðist halda vel gegn afbrigðinu.
Óttast B.1.621-afbrigðið
Í frétt Reuters er einnig fjallað um B.1.621-afbrigðið sem enn hefur ekki unnið sér inn grískan bóskstaf. Það greindist fyrst í Kólumbíu í janúar og er það talið vera sökudólgurinn í bylgju sem þar hófst.

Sóttvarnarstofnun Evrópu er með afbrigðið á vöktunarlista á sama tíma og Lýðheilsustofnun Englands segir að verið sé að rannsaka eiginleika afbrigðisins.
Talið er að allt að 37 tilfelli í Bretlandi séu af völdum þessa afbrigðis, auk þess sem að þess hefur orðið vart í Flórída í Bandaríkjunum. Talið er að afbrigðið innihaldi stökkbreytingar tengdar hafa verið við aukna útbreiðslu og minni vernd bóluefna.
Telja heimsbyggðina þurfa bóluefni sem tryggi að veiran smitist ekki á milli manna
Eins og komið hefur fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis virðist það liggja fyrir að bóluefnin gegn Covid-19 veiti ágæta vernd gegn alvarlegum veikindum, en ekki jafn góða vernd gegn smiti á milli manna og vonast var til.
Í umfjöllun Reuters er haft eftir dr. Gregory Poland, sérfræðingi í bóluefnum hjá Mayo Clinic í Bandaríkjunum að útlit sé fyrir að að til þess að sigrast á Covid-19 þurfi heimsbyggðin á nýjum bóluefnum að halda, bóluefnum sem komi einnig í veg fyrir smit á milli manna.