Erlent

Talibanar sakaðir um að myrða ólétta lögreglukonu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Banu Negar starfaði sem lögreglukona í Afganistan.
Banu Negar starfaði sem lögreglukona í Afganistan. Negar-fjölskyldan

Vígamenn Talibana í Afganistan hafa verið sakaðir um að hafa skotið ólétta lögreglukonu til bana. Konan er sögð hafa verið komin átta mánuði á leið.

BBC greinir frá og hefur eftir vitnum að ódæðinu. Í frétt BBC segir að staðarmiðlar í Afganistan segir að konan, Banu Negar, hafi verið skotin á fjölskylduheimili hennar fyrir framan fjölskyldu hennar. Ódæðið átti sér stað í Firozkoh, höfuðborg Ghor-héraðs í miðhluta Afganistan.

Í frétt BBC segir að ekki liggi ljóst fyrir hvað hafi nákvæmlega átt sér stað. Hins vegar hafi þrír heimildarmenn BBC greint frá því að vígamenn á vegum Talibana hafa barið og skotið Negar fyrir framan eiginmann hennar og börn. Árásin er sögð hafa átt sér stað í gær. Fjölskyldan segir hana hafa verið komna átta mánuði á leið.

Talsmaður Talibana segir að vígamenn á vegum þeirra hafi ekki verið að verki þegar Negar var myrt. Talibanar hafi fengið upplýsingar um ódæðið og verið sé að rannsaka málið.

Framtíð kvenna í Afganistan hefur verið sögð dökk eftir að Talibanar náðu völdum á landinu á ný, tuttugu árum eftir að þeim var komið frá völdum eftir innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra árið 2001.

Konur nutu nær engra réttinda og grimmilegum refsingum var beitt þegar talibanar réðu lögum og lofum frá 1996 til 2001. Margir óttast að þetta verði veruleiki kvenna nú eftir að Talibanar hafa tekið völdin.


Tengdar fréttir

Óttast að hryðjuverkahópar skjóti aftur rótum í Afganistan

Mark Milley, yfirmaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, telur líklegt að borgarastyrjöld muni skella á í Afganistan og að hryðjuverkahópar geti notið þá óreiðu til að skjóta þar niður rótum. Talibanar berjast nú við andófsmenn í Panjshir-dal en virðast vera að bera sigur úr býtum.

Kröfugöngu kvenna í Kabúl mætt með táragasi

Hópur kvenna sem mótmælti Talibönum í Kabúl, höfuðborg Afganistan, í dag segir að þeim hafi verið mætt af hörku. Táragasi og piparúða hafi verið spreyjað yfir hópinn og þær hindraðar í að komast að forsetahöllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×