Erlent

Leið­togar Tali­bana sagðir hafa hnakk­rifist í for­seta­höllinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Abdul Ghani Baradar, aðstoðarforsætisráðherra Afganistan, er sagður hafa verið einn af þeim sem tók þátt í rifrildinu
Abdul Ghani Baradar, aðstoðarforsætisráðherra Afganistan, er sagður hafa verið einn af þeim sem tók þátt í rifrildinu Getty/ANADOLU

Leiðtogar Talibana eru sagðir hafa hnakkrifist yfir því hvernig ný bráðabirgðaríkisstjórn þeirra í Afganistan er skipuð. Hávaðarifrildi er sagt hafa brotist út í forsetahöllinni í Kabúl.

Leiðtogarnir sem eiga að hafa átt í snörpum orðaskiptum sín á milli eru Mullah Abdul Ghani Baradar, aðstoðarforsætisráðherra og einn af stofnendum Talibana, og Khalil ur-Rahman Haqqani, ráðherra flóttamanna og einn af leiðtogum hins herskáa Haqqani-hóps.

BBC greinir frá og hefur eftir heimildarmönnum innan raða Talibana. Talibanar náðu völdum í Afganistan í síðasta mánuði og ný bráðabigðaríkisstjórn þeirra var mynduð á dögunum. Samanstendur hún af háttsettum leiðtogum Talibana.

Heimildarmaður BBC segir að Baradar og Hawwani hafi hnakkrifist á meðan stuðningsmenn þeirra hafi einnig blandað sér í málin. Er Baradar sagður vera óánægður með hvernig ríkisstjórnin er skipuð. Þá er hann einnig sagður vilja leggja áherslu á að Talibanar hafi náð yfirráðum í Afganistan með diplómatískum leiðum.

Er Haqqani sagður vera á öndverðum meiði, hann vilji meina að Talibanar hafi fyrst og fremst náð völdum í gegnum herstyrk þeirra. Leiðtogi hins herskáa Haqqani-hóps, Sirajuddin Haqqani, er innanríkisráðherra í ríkisstjórninni.

Í frétt BBC segir einnig að lítið hafi sést til Baradar síðustu daga eftir að rifrildið á að hafa átt sé stað. Baradar var á meðal þeirra sem skrifaði undir Doha-samkomulagið fyrir hönd Talibana á síðasta ári, en í því voru gefin fyrirheit um að Bandaríkin myndi draga herlið sitt frá Afganistan.


Tengdar fréttir

Tali­banar að­skilja há­skóla­nema eftir kyni

Afganskir stúdentar verða aðskildir eftir kyni og nýjar reglur um klæðaburð í háskólum verða settar í landinu. Þetta tilkynntu Talibanar í dag og sögðu að konum í landinu verði leyft að mennta sig, en ekki á sama stað og karlar.

Síðasta drónaárásin í Kabúl: Sjö börn úr sömu fjölskyldunni dóu

Síðasta eldflaugin sem vitað er að Bandaríkjamenn skutu í Afganistan grandaði ekki ISIS-liða eins og ráðamenn hafa haldið fram. Þess í stað lenti hún á bíl manns sem hefur starfað fyrir bandarísk hjálparsamtök sem var að skutla vinnufélögum sínum til og frá vinnu.

Talibanar skipa bráðabirgðastjórn

Talibanar tilkynntu í dag að þeir hefðu skipað bráðabirgðaríkisstjórn í Afganistan. Þar eru fremstir í flokki margir af eldri forystumönnum samtakanna sem hafa leitt baráttuna gegn fjölþjóðaliðinu og kjörnum stjórnvöldum síðustu tvo áratugina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×