Í frétt Reuters segir að dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir Zhou fullnægðu ekki kröfum um sönnunarbyrði.
Fréttaveitan segir Zhou hafa rætt við stuðningsmenn sína eftir að niðurstaðan varð ljós. Þar sagðist hún vonsvikin og úrvinda. Hún sagðist ekki viss um að hún hefði styrk til að áfrýja ákvörðuninni og eiga aftur þrjú erfið ár, eins og þau síðustu þrjú hefðu verið.
Seinna í gærkvöldi sendi hún þó út tilkynningu þar sem hún sagðist ætla að áfrýja málinu og þá sérstaklega vegna þess að dómurinn hafi ekki skoðað myndefni úr öryggismyndavélum frá 2014.
Steig fram árið 2018
Zhou, sem er 28 ára gömul, steig fram árið 2018 og sakaði Zhu Jun, þáttastjórnenda hjá ríkisreknu sjónvarpsstöðinni CCTV, um að káfa á sér og kyssa sig gegn vilja hennar árið 2014. Þá var hún í starfsnámi hjá CCTV. Frásögn hennar leiddi til þess að fjölmargar aðrar konur stigu fram með eigin frásagnir af kynferðisbrotum.
Ákvörðunin þykir mikið högg fyrir hreyfingu sem er þegar undir miklum þrýstingi yfirvalda í Kína. Þar hafa ráðamenn haldið því fram að áköll eftir auknum réttindum kvenna eigi rætur að rekja í vesturlöndum og þeim sé ætlað að grafa undan stöðugleika í Kína.
Mál Zhou beinir líka ljósi að áhyggjum forsvarsmanna Kommúnistaflokks Kína varðandi aktívisma og kvenréttindi. Í frétt Washington Post segir að umræða um ákvörðunina hafi verið ritskoðuð á kínverskum samfélagsmiðlum í gær. Þar að auki hafi samfélagsmiðlasíður þar sem fjallað var um kvenréttindi verið fjarlægðar í nótt.
Þar að auki hafi örfáir kínverskir fjölmiðlar fjallað um úrskurðinn frá því í gær.