Menning

„Maður svaf ekki dúr það var svo mikið brölt á þeim“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
RAX Augnablik SE02 EP01 03102021
Vísir/RAX

„Mykines er svolítið erfið eyja eða hefur verið af því að það voru oft svo miklir straumar í kringum eyjuna. Ég held að hún hafi verið áttatíu og eitthvað daga einhvern tímann út af brimi í kringum eyjuna af því að það komst enginn að henni,“ segir Ragnar Axelsson.

„Ef þeir þurftu á hjálp að halda þá fóru þeir og kveiktu eld til að sýna að það væri eitthvað að,“ segir RAX um þessa einstöku eyju.

Í fyrsta þættinum í annarri þáttaröð af RAX Augnablik, segir ljósmyndarinn frá eftirminnilegri ferð til eyjunnar Mykines í Færeyjum árið 1996. 

„Mykins er falleg eyja en það voru ekki margir íbúar þarna þegar ég kom.“

RAX lenti í vandræðum með að fá gistingu og spiluðu kýr stórt hlutverk í þessari eftirminnilegu ferð.

Frásögnina má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. 

Klippa: RAX Augnablik - Kýrin þrjóska í Mykinesi

Ragnar Axelsson hefur áður sagt frá ævintýrum sínum í Færeyjum í fyrstu þáttaröðinni af RAX Augnablik. Hann segir að Færeyjar séu einn af sínum uppáhalds stöðum og að þar sé besta fólk í heiminum. Í vinnuferð í Færeyjum árið 1988 kynntist hann manni að nafni Tomas. 

„Mér fannst hann svo flottur, mér fannst hann eins og sjóræningi. Með húfuna skakka, flottan svip og sat á stein og reykti og spýtti að sjóarasið.“

Þáttinn Tomas og nunnurnar má sjá hér fyrir neðan.

Lífið í Fugley

Árið 1988 dvaldi Ragnar Axelsson í mánuð í Færeyjum og myndaði mannlífið. Í Fugley eru tvær byggðir, Kirkja og Hattarvík, en þar kynntist ljósmyndarinn einstökum karakterum eins og Árna Dal, Oliviu, Guttormi og Símoni. RAX leið eins og hann væri staddur á leikriti þegar hann horfði í kringum sig og birtust myndir af mörgum þessum einstaklingum í bók hans Andlit Norðursins.

„Þetta er eins og tíminn hafi staðið í stað, þetta var eins og að fara hundrað ár aftur í tímann,“ segir RAX um lífið á eynni.

Ólafur í Sandey gengur aftur

Sumarið 1988 var ljósmyndarinn Ragnar Axelsson staddur í Færeyum á eyunni Sandey. Það rigndi mikið í litla þorpinu Húsavík þegar hann kom auga á mann á gangi sem studdist við staf.

„Það var ausandi rigning, ausandi. Ég ætlaði að mynda og það var maður þarna að ganga hjá bátahúsunum. Það var ekki séns að mynda hann því að linsurnar blotnuðu allar. Þannig að ég fór inn í bíl og tek mynd af honum í gegnum framrúðuna.“

Í þáttunum RAX AUGNABLIK segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson sögurnar á bak við margar af sínum þekktustu myndum. Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og eru sögurnar hans ævintýralegar. Nýr þáttur kemur út á hverjum sunnudegi hér á Vísi og á Stöð 2+. 

Hægt er að sjá alla þættina HÉR á Vísi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×