Hanwha Life hóf daginn á öruggum sigri gegn PSG Talon, áður en komið var að taplausum Royal Never Give Up gegn Fnatic, en þeir síðarnefndu voru enn í leit að sínum fyrsta sigri.
Eftir að hafa verið með forystuna fyrsta hálftímann fór að fjara undan hjá Royal Never Give Up. Fnatic gekk á lagið og vann að lokum nokkuð óvæntan sigur sem hélt vonum þeirra á lífi.
Royal Never Give Up fékk svo tækifæri strax í næsta leik til að koma sér aftur á beinu brautina þegar þeir mættu PSG Talon í þriðju viðureign dagsins. Þeir nýttu tækifærið vel, og með sigrinum var sæti í átta liða úrslitum tryggt.
Í fjórðu viðureign dagsins náðu liðsmenn Fnatic ekki að fylgja eftir góðum sigri á Royal Never Give Up þegar liðið mætti Hanwha Life.
Tap Fnatic þýddi að liðið átti ekki lengur möguleika á að komast upp úr riðlinum.
Hanwha Life og Royal Never Give Up mættust svo í fimmtu viðureign dagsins, en með sigri gátu þeir síðarnefndu tryggt sér efsta sæti riðilsins.
Liðsmenn Hanwha Life voru þó ekki tilbúnir að gefa það svo auðveldlega eftir, og unnu að lokum virkilega mikilvægan sigur. Sigurinn þýddi það að liðin þurftu að mætast aftur í bráðabana um fyrsta sæti riðilsins.
Áður en það gat gerst mættust Fnatic og PSG Talon í algjörlega þýðingarlausum leik. Fnatic gat reyndar jafnað PSG Talon í þriðja sæti með sigri, en PSG Talon tók forystuna snemma og vann að lokum nokkuð öruggan sigur.
Hanwha Life og Royal Never Give Up mættust þá að lokum í annað sinn í dag í sjöundu og seinustu viðureign dagsins í bráðabana um fyrsta sæti C-riðils.
Hanwha Life tók forystuna snemma, og hélt henni fyrstu 35 mínútur leiksins. Royal Never Give Up stóð hins vegar heldur betur undir nafni og þeir snéru leiknum sér í hag.
Eftir tæplega 45 mínútur af æsispennandi League of Legends voru það liðsmenn Royal Never Give Up sem stóðu uppi sem sigurvegarar í C-riðli.
Seinasti dagur riðlakeppninnar fer fram á morgun, en þá verður D-riðill kláraður. Það er kannski við hæfi að enda á þeim riðli, en þar er allt galopið. Gen.G og LNG eru jöfn í fyrsta sæti með tvo sigra og eitt tap, en MAD Lions og Team Liquid eru skammt undan með einn sigur og tvö töp hvort.
Eins og áður verður hægt að fylgjast með beinni útsendingu frá Heimsmeistaramótin frá klukkan 11:00 á morgun á Stöð 2 eSport.