Erlent

Um milljón umsagna á Tripadvisor í fyrra ekkert nema uppspuni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ósannar umsagnir draga úr áreiðanleika síða á borð við Tripadvisor.
Ósannar umsagnir draga úr áreiðanleika síða á borð við Tripadvisor.

Um milljón umsagna sem sendar voru inn á Tripadvisor í fyrra voru uppspuni. Þetta jafngildir 3,6 prósentum allra umsagna en samkvæmt talsmönnum fyrirtækisins náðist að stöðva birtingu 67,1 prósent hinna ósönnu umsagna áður en þær birtust.

Neytendasamtökin Which? komst að þeirri niðurstöðu árið 2019 að ein af hverjum sjö hótelumsögnum á síðunni væri uppspuni. 

Talsmenn Tripadvisor sögðu að hvað varðaði umsagnir sem greitt er fyrir hefðu slíkar verið fjarlægðar í 131 landi en mikil aukning hefði orðið á slíkum umsögnum á Indlandi, þó ekki endilega um þjónustufyrirtæki í landinu.

Þá báru rannsakendur fyrirtækisins kennsl á 65 nýjar vefsíður þar sem greitt er fyrir umsagnir og umsögnum hafnað frá 372 slíkum síðum.

Alls var tveimur milljónum umsagna hafnað eða þær fjarlægðar eftir birtingu, meðal annars vegna óviðeigandi orðanotkunar. Það eru hins vegar hinar ósönnu umsagnir sem þykja valda fyrirtækjum á borð við Tripadvisor mestum skaða, þar sem þær draga úr áreiðanleika.

Umsögnum fækkaði vegna kórónuveirunnar en faraldurinn bjó til nýjar áskoranir fyrir fyrirtækið, meðal annars þá að þurfa að yfirfara fjölda umsagna þar sem fólk var hvatt til að hundsa sóttvarnareglur. 

Alls voru um 20 þúsund notendur bannaðir fyrir að fara ekki að reglum síðunnar.

54,1 prósent allra umsagna sem sendar voru inn í fyrra voru vegna þjónustu í Evrópu og 23,5 prósent vegna þjónustu í Bandaríkjunum. Heildarfjöldi umsagna var 26 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×