Enski boltinn

Lýst sem hetju eftir að hafa hjálpað manni sem hneig niður

Sindri Sverrisson skrifar
Pierre Emile Höjbjerg stóð í ströngu á sunnudag í leiknum gegn Manchester United sem reyndist síðasti leikur Tottenham undir stjórn Nuno Espírito Santo.
Pierre Emile Höjbjerg stóð í ströngu á sunnudag í leiknum gegn Manchester United sem reyndist síðasti leikur Tottenham undir stjórn Nuno Espírito Santo. Getty/Chloe Knott

Danski landsliðsmaðurinn Pierre Emile Höjbjerg var á vellinum og hjálpaði til þegar Christian Eriksen fór í hjartastopp á EM í sumar. Hann lenti í svipuðum aðstæðum á sunnudag.

Höjbjerg vill örugglega gleyma sem fyrst 3-0 tapi Tottenham gegn Manchester United á sunnudaginn. Honum var hins vegar lýst sem hetju fyrir það sem gerðist eftir leik.

Samkvæmt Daily Mail átti Höjbjerg stóran þátt í því að bjarga manni sem hneig niður fyrir utan leikvang Tottenham eftir leikinn. Daninn var kominn upp í bílinn sinn og á leið heim þegar hann sá manninn og þaut út til að hjálpa honum.

Hringt var eftir sjúkrabíl en það var óþarfi þar sem einn slíkur var á leikvanginum. Ekið var með manninn á North Middlesex spítalann en upplýsingar um líðan hans eru trúnaðarmál, samkvæmt svari spítalans við fyrirspurn Daily Mail.

Höjbjerg var hjá manninum þar til að sjúkrabíllinn ók á brott með hann. Vegfarendur lýstu honum sem „hetju“ samkvæmt Daily Mail en sjálfur mun Daninn hafa sem minnst viljað gera úr sínum hlut og fullyrt að hann hefði aðeins gert það sem allir aðrir hefðu gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×