Enski boltinn

Stakk upp á því að Van de Beek myndi skíra barnið Ole Gunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Og hvað á barnið að heita? Ole Gunnar van de Beek-Bergkamp.
Og hvað á barnið að heita? Ole Gunnar van de Beek-Bergkamp. instagram-síða donny van de beek/getty/Matthew Peters

Donny van de Beek, leikmaður Manchester United, á von á barni með kærustu sinni, Estelle Bergkamp. Fyrrverandi landsliðsmaður Hollands kom með áhugaverða tillögu að nafni á barnið.

Van de Beek greindi frá því í vikunni að þau Bergkamp ættu von á sínu fyrsta barni. Bergkamp er dóttir gömlu Arsenal-hetjunnar Dennis Bergkamp.

Í athugasemd við færslu van de Beeks á Instagram óskaði Andy van der Mayde, fyrrverandi landsliðsmaður Hollands, þeim Bergkamp til hamingju. Hann spurði einnig hvort barnið yrði skírt Ole Gunnar eftir knattspyrnustjóra United.

Ole Gunnar Solskjær hefur notað van de Beek afar sparlega síðan að United keypti Hollendinginn frá Ajax fyrir fjörutíu milljónir punda í fyrra. Það verður því að teljast nokkuð ólíklegt að þau nefni barnið í höfuðið á Norðmanninum.

Van de Beek kom inn á sem varamaður undir lokin þegar United gerði 2-2 jafntefli við Atalanta í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn. Hann hefur aðeins leikið samtals 144 mínútur á tímabilinu.

United mætir grönnum sínum í Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á morgun. Leikur liðanna hefst klukkan 12:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×