Enski boltinn

Howe tekinn við Newcastle: „Þetta er stórkostlegt tækifæri“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eddie Howe er fyrsti knattspyrnustjórinn sem vellauðugir eigendur Newcastle United ráða.
Eddie Howe er fyrsti knattspyrnustjórinn sem vellauðugir eigendur Newcastle United ráða. getty/Robin Jones

Newcastle United hefur staðfest ráðningu Eddies Howe sem knattspyrnustjóra liðsins.

Howe tekur við Newcastle af Steve Bruce sem nýir eigendur félagsins ráku á dögunum. Howe hefur verið án starfs síðan hann hætti hjá Bournemouth í fyrra.

Hinn 43 ára Howe stýrði Bournemouth á árunum 2008-11 og 2012-20. Hann stýrði liðinu í öllum fjórum deildunum á Englandi, þar á meðal fimm ár í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er mikill heiður að verða þjálfari félags eins og Newcastle,“ sagði Howe í fréttatilkynningu frá Newcastle.

„Þetta er stórkostlegt tækifæri en það er mikil vinna fyrir höndum. Ég iða í skinninu að komast á æfingasvæðið og vinna með leikmönnunum.“

Eftir að Bruce var rekinn reyndi Newcastle að fá Unai Emery, knattspyrnustjóra Villarreal, en án árangurs. Þá sneru sádí-arabískir eigendur Newcastle sér að Howe.

Hans bíður krefjandi verkefni en Newcastle er í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er eina lið deildarinnar sem hefur ekki enn unnið leik.

Fyrsti leikur Newcastle undir stjórn Howes er gegn nýliðum Brentford laugardaginn 20. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×