Enski boltinn

Marcus Rashford ætlar að gefa mömmu sinni orðuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford fær hér MBE orðuna frá Vilhjálmi prins.
Marcus Rashford fær hér MBE orðuna frá Vilhjálmi prins. AP/Aaron Chown

Knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford hjá Manchester United fékk í gær MBE orðuna afhenta frá Vilhjálmi prins við sérstaka athöfn í Windsor kastala.

Rashford fékk orðuna fyrir starf sitt utan vallar þar sem hann hefur barist fyrir hagsmunum fátækra barna og fyrir því að allir nemendur frá frían mat í enskum skólum.

Rashford sagði við þetta tilefni að hann ætlaði sér að halda baráttunni áfram. Hann hefur þegar pressað á tvær U-beygjur hjá breskum stjórnvöldum sem urðu að hætta við að hætta við að bjóða upp á frían mat fyrir skólabörn.

Hinn 24 ára gamli Rashford hefur fengið mikið hrós fyrir baráttu sína og þann þroska sem hann sýnir í þessu mikilvæga þjóðfélagsmáli. Hann hefur líka safnað nógu miklum peningum síðan í mars 2020 til að borga fyrir 21 milljón máltíða fyrir fjölskyldur sem eiga á brattann að sækja í peningamálum.

Framherji Manchester United vill hala áfram að gefa börnum það sem hann fékk ekki þegar hann var yngri. „Ef ég hefði fengið slíkt þá hefði ég verið í miklu betri stöðu og með meiri möguleika í mínu lífi,“ sagði Marcus Rashford.

„Að mínu mati er verið að refsa þeim með því að leyfa þeim ekki að fá mat eða skólabækur,“ sagði Rashford.

Rashford ætlar líka að láta móður sína, Melanie Maynard, fá orðuna. Hún ól upp fimm börn á sama tíma og hún vann fullan vinnudag á lágmarkslaunum í Manchester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×