Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin byrjar aftur á öðrum degi jóla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo gæti farið langt með portúgalska landsliðinu á HM í Katar á næsta ári.
Cristiano Ronaldo gæti farið langt með portúgalska landsliðinu á HM í Katar á næsta ári. EPA-EFE/Peter Powell

Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni fá bara átta daga í hvíld eftir heimsmeistarakeppnina á næsta ári fari þeir alla leið í úrslitaleikinn með þjóð sinni.

Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu fer fram í nóvember og desember á næsta ári og af þeim sökum þurfa evrópsku deildirnar að gera langt hlé á keppni hjá sér.

HM í Katar þarf að fara fram á þessum tíma vegna mikilla hita yfir sumartímann í landinu.

Enska úrvalsdeildin hefur nú staðfest útfærslu sína og þar kemur í ljós að það munu bara líða átta dagar frá úrslitaleik heimsmeistaramótsins þar til að keppni hefst á ný í ensku deildinni.

Enska deildin mun líka hefjast einni viku fyrr eða 6. ágúst 2022 og enda einni viku síðar eða 28. maí 2023.

Það verða sextán umferðir búnir þegar deildin fer í HM frí eftir helgina 12. til 13. nóvember. Heimsmeistarakeppnin hefst síðan 21. nóvember.

Fyrsta umferð eftir HM-hlé verður síðan á öðrum degi jóla, 26. desember 2022.

Leikmenn hafa vanalega fengið þrjár vikur til að jafna sig eftir stórmót eins og heimsmeistarakeppni. Nú fá þeir bara viku spili þeir úrslitaleikinn á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×