Enski boltinn

Sky Sports: Pochettino áhugasamur um Man. United starfið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mauricio Pochettino á blaðamannafundi sem stjóri Paris Saint Germain.
Mauricio Pochettino á blaðamannafundi sem stjóri Paris Saint Germain. EPA-EFE/YOAN VALAT

Leitin að eftirmanni Ole Gunnars Solksjær í stjórastólnum hjá Manchester United er áberandi í öllum miðlum og margt bendir til þess að Argentínumaður muni taka við liðinu.

Mauricio Pochettino hefur nefnilega áhuga á því að taka við liði Manchester United þrátt fyrir að vera í starf sem knattspyrnustjóri eins besta liðs Evrópu í dag.

Sky Sports hefur heimildir fyrir því að Pochettino sé spenntur fyrir starfinu á Old Trafford en á móti hafa komið fréttir af því frá Old Trafford að Pochettino sé efstur á óskalista félagsins.

Næstur á eftir Pochettino á óskalista Manchester United er síðan Erik Ten Hag, knattspyrnustjóri Ajax, sem er einnig sagður hafa hundrað prósent áhuga á því að taka við United.

Hinn 49 ára gamli Pochettino hefur verið stjóri Paris Saint-Germain frá því í janúar en áður var hann knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur frá 2014 þar til að hann var rekinn úr starfi í nóvember 2019.

Næsti leikur Pochettino með lið PSG er einmitt á móti Manchester City í Meistaradeildinni á miðvikudaginn. Sá leikur fer fram á City of Manchester leikvanginum í Manchester og verður argentínski stjórinn því í borginni í þessari viku.

Pochettino gerði upphaflega átján mánaða samning við franska félagið í janúar en er með samning í París til sumarsins 2023 eftir að hafa framlengt um eitt ár.

Parísarliðið er uppfullt af mörgum af stærstu stjörnum fótboltans en það lítur út fyrir að Pochettino sé tilbúinn að gefa það eftir til að komast til Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×