Enski boltinn

Lebron og Liverpool framleiða vörur saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James sést hér á Anfield þegar hann mætti á leik Liverpool og Manchester United.
LeBron James sést hér á Anfield þegar hann mætti á leik Liverpool og Manchester United. Getty/Clive Brunskill

LeBron James er á leiðinni í enska fótboltann. Ekki reyndar til að spila heldur sem hluti af markaðssetningu Nike í tengslum við samning sinn við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool.

Nike ætlar að framleiða vörur með LeBron James og Liverpool í líkingu við það sem íþróttavöruframleiðandinn gerði með Michael Jordan línuna fyrir franska félagið Paris Saint Germain.

Flest mannsbörn ættu að kannast við Air Jordan vörurnar og nú á samvinna Lebron og Liverpool að vera svolítið eins framleiðslan á Air Jordan vörum fyrir Nike.

LeBron James er í eigandahópi Liverpool og hefur átt hlut í enska félaginu síðan 2011. Upp á síðkastið hefur meira sést af honum í Liverpool vörum og þá hefur hann tjáð sig um liðið á samfélagsmiðlum. Allt líklega til að undirbúa skrefið sem hann er að fara að taka í næstu framtíð.

Nike ætlar sér að reyna að fá eins mikið og hægt er út úr samningi sínum við Liverpool. Ætlunin er að gera svipaða hluti og Nike hefur gert með Jordan vörur fyrir lið Paris Saint Germain.

Það hefur ekki komið fram um hvernig vörur verður að ræða en samkvæmt fréttum að utan þá eiga þetta að vera sjö til átta vörur sem tengja saman LeBron James og fótboltann.

James hefur svolítið verið að elta Jordan allan sinn feril og er þetta dæmi um hann að feta í fótspor besta leikmanns allra tíma með því að fá sína eigin vörulínu. LeBron endurgerði eins og kunnugt er Space Jam kvikmyndina í ár og hét hún Space Jam: A New Legacy.

Nú gæti því Liverpool liðið fara að spila í LeBron búningum eins og Paris Saint Germain hefur verið að spila í Jordan búningnum.

Líklegra er þó að um verði aðrar vörur en ekki sjálfir búningarnir. Það verður þó að koma betur í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×