Enski boltinn

Man. Utd. klárt með lista yfir fimm stjóra sem gætu tekið við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lucien Favre er meðal þeirra sem kemur til greina sem næsti knattspyrnustjóri Manchester United. Hann var síðast við stjórnvölinn hjá Borussia Dortmund.
Lucien Favre er meðal þeirra sem kemur til greina sem næsti knattspyrnustjóri Manchester United. Hann var síðast við stjórnvölinn hjá Borussia Dortmund. getty/Lars Baron

Forráðamenn Manchester United hafa teiknað upp lista yfir fimm knattspyrnustjóra sem gætu tekið við liðinu og stýrt því út tímabilið.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að mennirnir á þessum lista séu Ernesto Valverde, Rudi Garcia, Lucien Favre, Ralf Rangnick og Paulo Fonseca. Allt eru þetta reyndir stjórar þótt enginn þeirra hafi áður starfað á Englandi.

Mauricio Pochettino er draumakandítat United-manna í stjórastarfið en talið er að ekki sé hægt að fá hann fyrr en í sumar. Pochettino hefur stýrt Paris Saint-Germain frá því í byrjun þessa árs. United ætlar því að brúa bilið með reynslumiklum stjóra og fá hann til að klára tímabilið.

Michael Carrick tók tímabundið við United eftir að Ole Gunnar Solskjær var sagt upp um helgina. Carrick stýrði United í 0-2 sigrinum á Villarreal í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn. United er öruggt með efsta sætið í F-riðli Meistaradeildarinnar og þar með sæti í sextán liða úrslitum keppninnar.

Næsti leikur United er gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Chelsea hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og vann meðal annars 4-0 sigur á Juventus í Meistaradeidlinni á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×