Enski boltinn

Stuðningsmenn Man. United ætla að hylla Solskjær á Arsenal leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær brosir fyrir síðasta leik sinn sem stjóri Manchester United sem var á móti Watford á Vicarage Road 20. nóvember síðastliðinn.
Ole Gunnar Solskjær brosir fyrir síðasta leik sinn sem stjóri Manchester United sem var á móti Watford á Vicarage Road 20. nóvember síðastliðinn. Getty/Charlie Crowhurst

Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær var rekinn sem knattspyrnustjóri Manchester United á dögunum en það breytir því þó ekki að stuðningsmenn félagsins vilja heiðra þessa goðsögn hjá félaginu.

Manchester United spilar á móti Arsenal á Old Trafford á morgun en það verður fyrsti heimaleikur félagsins síðan að Solskjær þurfti að taka pokann sinn.

Stuðningsmenn United ætla að nota tækifærið og hylla Solskjær með því að vígja nýjan risastóran Solskjær fána í Stretford End stúkunni. Með því er ætlunin að þakka honum fyrir sitt framlag en Norðmaðurinn kvaddi félagið með tárin í augunum í síðustu viku.

Manchester United er búið að ráða Þjóðverjann Ralf Rangnick sem stjóra liðsins en þar sem hann er ekki kominn með atvinnuleyfi mun Michael Carrick stýra liðinu í þriðja leiknum í röð.

Solskjær þurfti að taka pokann sinn eftir 4-1 tap á móti Watford en hann var stjóri félagsins í næstum því þrjú ár.

Það eru ekki allir sáttir með þetta hjá stuðningsmönnunum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Undir hans stjórn vann United enga titla en endaði í öðru sæti bæði í ensku úrvalsdeildinni og Evrópudeildinni á síðustu leiktíð.

Liðið tapaði sjö af síðustu þrettán leikjum hans sem stjóra.

Hinn 48 ára gamli Solskjær er mikil goðsögn hjá félaginu eftir ellefu ár sín sem leikmaður félagsins frá 1996 til 2007.

Ole Gunnar vann sex meistaratitla og skoraði sigurmarkið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 1999 sem um leið innsiglaði þrennuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×