Enski boltinn

Guardiola: Jack Grealish hefur spilað betur en hann heldur sjálfur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Grealish í leik með Manchester City í Meistaradeildinni.
Jack Grealish í leik með Manchester City í Meistaradeildinni. Getty/Marc Atkins

Manchester City eyddi metpening í enska landsliðsmanninn Jack Grealish í haust og hefur ekki alveg skilað tölum í takt við kaupverðið. Knattspyrnustjórinn Pep Guardiola er samt ánægðari með hann en sumir myndu búast við.

Grealish var keyptur á hundrað milljónir punda frá Aston Villa en er með tvö mörk og þrjár stoðsendingar í fimmtán leikjum á sínu fyrsta tímabili.

Grealish hefur ekki spilað með liðinu síðan að hann meiddist í síðasta landsliðsverkefni og viðurkenndi í viðtali við Telegraph að byrjunin hjá Manchester City hafi verið erfiðari en hann bjóst við.

Grealish var í umræðunni á blaðamannafundi fyrir leik kvöldsins þar sem Manchester City er þá að mæta hans gamla félagi.

„Ég veit hversu fullkominn hann er. Ég er ekki í neinum vafa um það,“ sagði Pep Guardiola um hinn 26 ára gamla Grealish.

„Ég sá ekki einn leik þar sem hann sýndi ekki gæðin sem hann býr yfir,“ sagði Guardiola sem er á því að Jack Grealish hafi spilað betur en hann heldur sjálfur.

„Hér krefst ég þess að menn séu að spila sinn besta leik í hverjum leik og eftir á reyni ég að komast að því af hverju liðið spilaði ekki eins vel og það átti að gera. Við munum síðan reyna að hjálpa leikmönnunum að bæta það. Hingað til hefur Jack Grealish alltaf spilað vel í sínum leikjum,“ sagði Guardiola.

„Hjá Villa byrjaði kannski allt saman hjá honum og hann var þá frjálsari. Nú er hann í nýrri stöðu og ef til vill hefur vantað upp á að hann sé ákveðnari á síðasta þriðjungnum,“ sagði Guardiola.

„Kannski er af því að hann ber mikla virðingu fyrir liðsfélögnum eða að hann er í nýju umhverfi. Það er eðlilegt og hluti af ferlinu. Hann þarf tíma. Það ætti að vera auðvelt fyrir hann með þessi gæði. Hann þarf bara að verja frjáls og vera hann sjálfur,“ sagði Guardiola. City stjórinn vill að Grealish reyni aðeins meira sjálfur og verði eigingjarnari upp við mark andstæðinganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×