Enski boltinn

Ronaldo fyrstur í 800 mörk

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo skoraði sitt 800. mark á knattspyrnuferlinum í gærkvöldi.
Cristiano Ronaldo skoraði sitt 800. mark á knattspyrnuferlinum í gærkvöldi. Vísir/EPA

Cristiano Ronaldo gerði sér lítið fyrir og skoraði sitt 800. mark á ferlinum í 3-2 sigri Manchester United gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Hann er þar með fyrsti leikmaðurinn í sögunni til að skora 800 mörk á ferlinum fyrir landslið og félagslið. Hinn brasilíski Pelé skoraði reyndar 1.283 mörk á sínum ferli, en þar af eru „aðeins“ 757 mörk skráð í keppnisleikjum með félagsliðum og landsliði.

Ronaldo bætti um betur því hann skoraði tvö mörk í sigrinum í gær og er því kominn með 801 mark á sínum langa ferli. Hann hefur skorað 129 mörk fyrir United, 450 fyrir Real Madrid, 101 fyrir Juventus, fimm fyrir Sporting Lissabon og 115 fyrir portúgalska landsliðið.

Ronaldo verður 37 ára snemma á næsta ári og fyrir flesta knattspyrnumenn þykir það nokkuð hár aldur. Sá portúgalski er hins vegar enginn venjulegur fótboltamaður og það verður forvitnilegt að sjá hversu lengi hann getur haldið áfram að raða inn mörkum.


Tengdar fréttir

Mikilvægur sigur United í stórleiknum

Manchester United vann í kvöld mikilvægan 3-2 sigur er liðið tók á móti Arsenal á Old Trafford í seinasta leik liðsins áður en Ralf Rangnick tekur við stjórnartaumunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×