Enski boltinn

Segja að Godfrey hafi ætlað sér að stíga á Tomiyasu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Takehiro Tomiyasu var með áverka á hökunni eftir að Ben Godfrey steig á hann í gær.
Takehiro Tomiyasu var með áverka á hökunni eftir að Ben Godfrey steig á hann í gær. Chris Brunskill/Fantasista/Getty Images

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Manchester United og enska landsliðsins í fótbolta og núverandi sparkspekingur, segist vera alveg viss um að það hafi ekki verið neitt óviljaverk hjá Ben Godfrey að stíga á andlit Takehiro Tomiyasu í leik Everton og Arsenal í gærkvöldi.

Í 2-1 sigri Everton geng Arsenal í gær átti sér stað ljótt atvik þegar Ben Godfrey, leikmaður Everton, steig á andlit Takehiro Tomiyasu, leikmanns Arsenal. 

Atvikið var skoðað í VAR, en dómari leiksins, Mike Dean, mat það svo að um óviljaverk væri að ræða og því fékk Godfrey að halda leik áfram. Gary Neville er þó ekki sammála því, en segist þó skilja að Dean hafi ekki veifað rauða spjaldinu.

„Þú ert að tala við tvo meistara í því að fylgja eftir í andlit andstæðingsins og láta það líta út eins og slys,“ sagði Neville í setti hjá Sky Sports eftir leik gærkvöldsins, og átti þá við sig sjálfan og Jamie Carragher, fyrrverandi leikmann Liverpool.

„Við höldum að hann ætli sér klárlega að gera þetta. Hann áttar sig svo á því hvað hann hefur gert og segir bara „Æ, þetta var slys.“

„Sem atvinnumaður þá er það hundrað prósent á hreinu að hann var að reyna þetta. Hins vegar skil ég af hverju myndbandsdómarinn segir að þetta hafi verið slys og við getum ekki sannað það. En sem atvinnumaður þá veistu það.“

Jamie Carragher tók í sama streng og kollegi sinn, og segir að Godfrey hafi verið heppinn. 

„Hann ætlaði sér að gera þetta, en ég skil af hverju þetta er ekki rautt. Hann er virkilega heppinn strákur,“ sagði Carragher.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×