Enski boltinn

Nýr hugarþjálfari United tengdafaðir leikmanns sem er orðaður við félagið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kærustuparið Timo Werner og Paula Lense.
Kærustuparið Timo Werner og Paula Lense. getty/Jens Kalaene

Sascha Lense, nýr hugarþjálfari Manchester United, er með tengingu í eitt af bestum liðum ensku úrvalsdeildarinnar, Chelsea.

Þýski framherjinn Timo Werner er nefnilega tengdasonur Lenses. Hann hefur verið í sambandi með Paulu, dóttur Lenses, undanfarin fjögur ár. Þau kynntust þegar Werner spilaði með RB Leipzig. Á þeim tíma var Lense hugarþjálfari félagsins.

Werner hefur verið orðaður við United að undanförnu og það er spurning hvort koma tengdaföðursins til United muni liðka fyrir mögulegum félagaskiptum.

Werner hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann kom til Chelsea í fyrra. Hann hefur skorað fimmtán mörk í 64 leikjum fyrir Chelsea.

Rangnick og Lense hafa unnið lengi saman, meðal annars hjá Leipzig og Schalke. Rangnick er fullviss um að Lense reynist United vel.

„Fyrir mér er þetta algjörlega borðleggjandi. Þetta snýst ekki um að koma leikmönnum á rauða sófann og halda í hönd þeirra. Ef að maður er með sérþjálfara fyrir markvörslu, sóknarleik, líkamsrækt og þolþjálfun, þá ætti maður að vera með heilasérfræðing líka,“ sagði Rangnick.

Hann stýrir United í annað sinn þegar liðið tekur á móti Young Boys í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×