Enski boltinn

Tekinn úr hóp eftir að hafa hnakkrifist við Benítez

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samband þeirra Lucas Digne og Rafas Benítez þykir ekki gott.
Samband þeirra Lucas Digne og Rafas Benítez þykir ekki gott. getty/Richard Sellers

Lucas Digne var tekinn út úr leikmannahópi Everton að hafa rifist við Rafa Benítez, knattspyrnustjóra liðsins, á æfingu fyrir leikinn gegn Arsenal.

Samband þeirra Dignes og Benítez hefur versnað að undanförnu og á æfingu fyrir leikinn gegn Arsenal sauð upp úr. The Athletic greinir frá.

Digne ku vera ósáttur við leikstíl Benítez og þá var hann ósáttur eftir að hann var látinn hætta að taka föst leikatriði.

Eftir rifrildis við Benítez er framtíð Dignes hjá Everton í óvissu. Staða hans veiktist einnig þegar Marcel Brands sagði af sér sem yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu. 

Brands átti stóran þátt í því að fá Digne til Everton frá Barcelona sumarið 2018. Digne skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við Everton í febrúar.

Ben Godfrey lék nokkuð óvænt í stöðu vinstri bakvarðar er Everton vann nokkuð óvæntan 2-1 sigur á Arsenal á mánudagskvöld þökk sé mörkum Richarlison og Demarais Gray. 

Godfrey stóð sig ágætlega í leiknum þó hann hefði vissulega átt að fá rautt spjald fyrir að traðka á Takehiro Tomiyasu, varnarmanni Arsenal.

Everton er sem stendur í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×