Enski boltinn

Öðrum leik Tottenham frestað vegna hópsmitsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leik Tottenham Hotspur og Brighton í ensku úrvalsdeildinni hefur verið frestað vegna hópsmits innan herbúða Tottenham.
Leik Tottenham Hotspur og Brighton í ensku úrvalsdeildinni hefur verið frestað vegna hópsmits innan herbúða Tottenham. Shaun Botterill/Getty Images

Tottenham Hotspur gat ekki tekið á móti Rennes í Sambandsdeild Evrópu í kvöld vegna fjölda kórónuveirusmita innan herbúða liðsins. Nú hefur enska úrvalsdeildin ákveðið að fresta leik liðsins gegn Brighton sem átti að fara fram næsta sunnudag.

Leik Tottenham og Rennes sem átti að fara fram í kvöld var frestað eftir að átta leikmenn og fimm úr starfsliði Tottenham greindust með kórónuveiruna, og nú hefur enska úrvalsdeildin ákveðið að gera slíkt hið sama varðandi leik Tottenham og Brighton næsta sunnudag.

Lundúnaliðið neyddist til að loka æfingasvæði aðalliðsins í gær, og í yfirlýsingu frá ensku úrvalsdeildinni kemur fram að ákvörðunin hafi verið tekin með heilsu leikmanna og starfsfólks í huga.

Þá kemur einnig fram að enn sé unnið í því að finna nýja dagsetningu fyrir leikinn. Þetta er annar leikur Tottenham sem er frestað í ensku úrvalsdeildinni á stuttum tíma, en leik liðsins gegn Burnley sem átti að fara fram þann 28. nóvember var frestað vegna mikillar snjókomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×