Enski boltinn

Solskjær gaf jólagjafir eftir að hafa verið rekinn

Sindri Sverrisson skrifar
Ole Gunnar Solskjær var látinn fara frá United eftir slakt gengi í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.
Ole Gunnar Solskjær var látinn fara frá United eftir slakt gengi í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Getty/John Walton

Norski knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær kom öllum á óvart á sínum gamla vinnustað hjá Manchester United og útdeildi jólapökkum.

Solskjær var rekinn frá United 21. nóvember. Hann hafði þá stýrt liðinu í tæp þrjú ár eftir að hafa áður starfað fyrir félagið sem þjálfari varaliðsins á árunum 2008-2011, og auðvitað sem leikmaður árin 1996-2007.

Daily Mail greindi frá því að Solskjær væri ekki gramari en svo yfir brottrekstrinum að hann hefði sent jólagjafakörfur til lykilstarfsfólks hjá United. Segir blaðið að Solskjær sé enn mikils metinn af fyrrverandi samstarfsfólki og að óvæntur jólaglaðningurinn hafi kallað fram tilfinningarík viðbrögð.

Þjóðverjinn Ralf Rangnick tók við af Solskjær og United hefur unnið fyrstu tvo deildarleikina undir hans stjórn, 1-0 gegn Crystal Palace og Norwich, og gert 1-1 jafntefli við Young Boys í þýðingarlitlum leik í Meistaradeild Evrópu.

Bið verður á því að United spili sinn næsta leik því viðureign liðsins við Brentford, sem fara átti fram í kvöld, hefur verið frestað vegna hópsmits hjá United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×