Enski boltinn

Teknir í smitpróf daglega vegna kórónuveirukrísunnar

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo og Mohamed Salah þurfa nú, eins og aðrir, að fara í smitpróf daglega.
Cristiano Ronaldo og Mohamed Salah þurfa nú, eins og aðrir, að fara í smitpróf daglega. Getty/Michael Regan

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta hafa gripið til ráðstafana eftir að metfjöldi kórónuveirusmita greindist hjá leikmönnum og starfsliði félaganna tuttugu í deildinni.

Á síðustu dögum hefur þurft að fresta tveimur leikjum vegna hópsmita í röðum Tottenham og Manchester United. Fram undan er stíf leikjadagskrá yfir jólin og lítið svigrúm er til að fresta leikjum.

Á mánudag var greint frá því að 42 smit hefðu greinst undanfarna viku. Ekki hafa fleiri smit greinst í einni viku frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á fyrri hluta síðasta árs.

Áður höfðu mest greinst 16 smit í einni viku á þessari leiktíð, dagana 16.-22. ágúst.

Vegna þessarar stöðu þurfa leikmenn og starfsmenn félaganna í deildinni nú að fara í hraðpróf á hverjum degi til að mega fara inn á æfingasvæði. Þar að auki þurfa þeir að fara í PCR-próf að minnsta kosti tvisvar í viku.

Þá hafa einnig verið gefin út tilmæli þess efnis að leikmenn noti oftar grímur, takmarki tíma sinn í sjúkraþjálfun og haldi sig í fjarlægð frá öðrum eins og kostur er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×