Enski boltinn

Stjóri Brentford vill fresta öllum leikjum í enska um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Frank er knattspyrnustjóri Brentford FC. Hann vill róttækar aðgerðir.
Thomas Frank er knattspyrnustjóri Brentford FC. Hann vill róttækar aðgerðir. EPA-EFE/Vickie Flores

Enska úrvalsdeildin hefur þurft að fresta fimm leikjum í deildinni síðustu daga vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Einn stjóri deildarinnar vill ganga enn lengra til að ná að hemja útbreiðslu smitanna.

Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, greindi frá því á blaðamannafundi að fjögur tilfelli til viðbótar hefðu komið upp hjá hans liði. Þau eru alls orðin þrettán hjá Brentford.

Frank vill að enska úrvalsdeildin fresti öllum leikjum á næstunni til að gefa öllum færi á því að ná utan um hópsmitin sem eru á fleygiferð hjá mörgum félögum.

Leik Tottenham og Leicester, sem átti að fara fram í kvöld, hefur verið frestað en áður hafði verið frestað leik Tottenham og Brighton & Hove Albion, leik Manchester United og Brentford auk leiks Burnley og Watford. Þá var leik Manchester United og Brighton frestað eftir fundinn hans.

„Mér finnst að við ættum að fresta allri umferðinni um þessa helgi. Kórónuveirusmitum fjölgar mikið hjá öllum félögum og það eru allir í vandræðum með þetta,“ sagði Thomas Frank.

„Með því að fresta þessari umferð og deildabikarleikjunum í næstu viku þá gæfum við öllum að minnsta kosti eina viku, eða alla vega fjóra eða fimm daga, til að hreinsa til og gera allt sem þarf að gera á æfingasvæðunum. Við verðum að gera það til að rjúfa þessa smitkeðju,“ sagði Frank.

„Í fótbolta er mikil nálægð. Sjúkraþjálfararnir þurfa að sinna leikmönnum. Við erum allir í klefanum á leikdögum, við ferðumst saman og það er því talsvert erfiðara fyrir okkur að vinna að heiman,“ sagði Frank.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×