Fjögur mörk og rautt spjald á loft þegar Tottenham og Liverpool skildu jöfn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sóknarmenn Tottenham fóru illa með færin í dag.
Sóknarmenn Tottenham fóru illa með færin í dag. vísir/Getty



Tottenham og Liverpool skildu jöfn í bráðfjörugum leik í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í síðasta leik helgarinnar.

Tottenham var að leika sinn fyrsta leik eftir tólf daga hlé en Liverpool var á mikilli siglingu eftir að hafa unnið sex deildarleiki í röð.

Heimamenn komust yfir snemma leiks því Harry Kane skoraði á þrettándu mínútu. Fyrsta mark kappans á heimavelli á tímabilinu. Son Heung Min og Dele Alli fengu báðir dauðafæri til að tvöfalda forystuna á fyrsta hálftíma leiksins en nýttu færi sín illa.

Þess í stað fór Liverpool með jafna stöðu í leikhléið þar sem Diogo Jota jafnaði metin með skallamarki eftir fyrirgjöf Andy Robertson á 35.mínútu. Skömmu síðar féll Jota í vítateig heimamanna og vildi fá vítaspyrnu en ekkert var dæmt. Fékk Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, gult spjald fyrir tuð í kjölfarið en fyrr í leiknum hafði Klopp kallað eftir að Kane fengi rautt spjald fyrir glæfralega tæklingu á Robertson.

Robertson kom Liverpool í forystu á 69.mínútu en heimamenn voru alls ekki sáttir með dómgæsluna í því atriði. Vildi Dele Alli fá vítaspyrnu í vítateignum hinumegin í aðdraganda marksins auk þess sem Mo Salah handlék knöttinn í vítateig Tottenham skömmu áður en Robertson skoraði.

Tottenham voru fljótir að jafna metin en það gerði Son á 74.mínútu þegar hann færði sér slæm mistök Alisson í nyt.

Nokkrum andartökum síðar var Robertson vikið af velli með rautt spjald eftir ljótt brot á Emerson Royal eftir að tæklingin hafði verið skoðuð af VAR.

Tottenham tókst ekki að nýta sér liðsmuninn og skildu liðin því jöfn, 2-2 í afar viðburðaríkum leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira