Enski boltinn

Ensku félögin ræða næstu skref í baráttunni gegn kórónuveirunni á mánudaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Félögin innan ensku úrvalsdeildarinnar funda um næstu skref á mánudaginn.
Félögin innan ensku úrvalsdeildarinnar funda um næstu skref á mánudaginn. Naomi Baker/Getty Images

Forráðamenn félaganna í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta munu hittast næsta mánudag til að ræða hvað skuli gera vegna fjölda nýrra kórónuveirusmita innan deildarinnar.

Alls hefur níu leikjum í ensku úrvalsdeildinni verið frestað á undanfarinni viku vegna faraldursins, þar á meðal fimm af þeim tíu leikjum sem áttu að fara fram um helgina.

Thomas Frank,  knattspyrnustjóri Brentford, hefur verið hvað háværastur í ósk sinni um að fresta öllum leikjum deildarinnar þar til annan dag jóla til að gefa félögunum möguleika á því að ná stjórn á smitunum.

Einhverjir vilja jafnvel að deildin verði stöðvuð í lengri tíma en Thomas Frank hefur stungið upp á. Aðrir vilja hins vegar ekki sjá það gerast að deildin verði sett á ís, þar á meðal Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.

Enska úrvalsdeildin sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem kom fram að áform séu um að halda áfram að spila deildarleiki, svo lengi sem það sé öruggt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×