Enski boltinn

Klopp: Ég veit ekki hvað Tierney dómari hefur á móti mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp var mjög ósáttur með ákvarðanir Paul Tierney eins og sést á þessari mynd.
Jürgen Klopp var mjög ósáttur með ákvarðanir Paul Tierney eins og sést á þessari mynd. AP/Frank Augstein

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var allt annað en sáttur með Paul Tierney dómara í 2-2 jafnteflinu á móti Tottenham í gær.

Klopp sagði meira segja við Tierney í leikslok að hann ætti í engum vandræðum með neinn dómara í ensku deildinni nema hann.

Liverpool vildi fá rautt spjald á Harry Kane fyrir sólartæklingu hans sem og að fá víti þegar Diego Jota féll í teignum. Í stað þess var Andrew Robertson tekinn af velli í seinni hálfleik og Liverpool varð að sætta sig við 2-2 jafntefli.

Hér fyrir neðan sjá viðtal við Klopp og eins svipmyndir af öllum þessum umdeildu atvikum.

„Ég veit ekki hvað Tierney dómari hefur á móti mér,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn.

„Það voru miklar tilfinningar hjá mér í þessum leik en er það bara ekki eðlilegt í leik sem þessum. Hann kemur sérstaklega til mín og gefur mér gult spjald en ég hefði kosið frekar réttar ákvarðanir hjá honum inn á vellinum,“ sagði Klopp.

„Við misstum alla miðjuna okkar og besta miðvörð heims. Við missum fyrirliðann okkar á leikdegi og við gátum því ekki beðið um besta fótboltaleik okkar á tímabilinu. Þú verður bara að berjast í þessari stöðu og það gerðu strákarnir,“ sagði Klopp.

„Ég vil bara fá óhlutdrægan dómara sem sér atvikin og dæmir þau. Hann sagði mér að hann sagði að Jota hefði stoppað viljandi. Það er ótrúlegt. Hann var í bestu stöðunni á vellinum. Þú verður að spyrja hann um hvað ég hef eiginlega gert honum,“ sagði Klopp.

„Ég held að við séum öll sammála um að þetta var klárt rautt spjald. Ég þarf bara að spyrja tvo menn og það er herra Tierney og hver sem var yfir VAR. Það er hægt að gefa [Andrew] Robertson rautt spjald og hann veit það sjálfur. Harry átti aldrei að vera inn á vellinum í seinni hálfleik og segðu mér þá hvernig leikurinn hefði endað. Ef herra Tierney sér það ekki þá skila ég það. En VAR var greinilega með á nótunum því þeir báðu hann um að sjá atvikið með Robertson,“ sagði Klopp.

„Þú þarft ekki á dómara að halda sem hjálpar þér. Þú þarft hins vegar dómara sem er með allt á hreinu og er óhlutdrægur. Í þremur atriðum þá hafði hann eitt rétt en tvö voru röng. Allt var á móti okkur,“ sagði Klopp.

Hér fyrir neðan má sjá hvað Klopp sagði við Paul Tierney strax eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×