Enski boltinn

Vildi losna frá Arsenal eftir aðeins þrjá mánuði hjá félaginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willian upplifði erfiða tíma hjá Arsenal og vildi fljótt komast í burtu þrátt fyrir að fá meira en 34 milljónir í laun á viku.
Willian upplifði erfiða tíma hjá Arsenal og vildi fljótt komast í burtu þrátt fyrir að fá meira en 34 milljónir í laun á viku. EPA-EFE/Frank Augstein

Willian var aldrei ánægður hjá Arsenal eftir að hafa komið þangað frá Chelsea á sínum tíma. Hann sagði Rio Ferdinand frá því að hafa beðið umboðsmann sinn um að koma sér í burtu frá félaginu.

Willian spilaði í sjö ár hjá Chelsea og alls 339 leiki fyrir félagið. Hann fór frá Chelsea sumarið 2020 og samdi þá við Arsenal eftir að hafa fengið góðan samning þar.

Það er ekki langt á milli Arsenal og Chelsea enda bæði félögin í London. Brasilíumaðurinn fann sig hins vegar aldrei hjá Arsenal. Hann spilaði 37 leiki á tímabilinu og fékk á sig talsverða gagnrýni fyrir slaka frammistöðu.

Arsenal sagði upp samningnum hans í ágúst og Willian fór heim til Brasilíu og samdi við æskufélagið sitt Corinthians.

„Ég var ekki ánægður og þess vegna stóð ég mig ekki vel. Ég vil ekki fara í einhver smáatriði en ég var ekki ánægður, sagði í spjalli við Rio Ferdinand í þættinum Rio Ferdinand Presents FIVE.

„Ég var ánægður þegar ég kom þangað og var mótiveraður í byrjun. Ég vildi standa mig vel hjá nýju félagi og með nýjum liðsfélögum,“ sagði Willian.

„Eftir þrjá mánuði þá sagði ég við umboðsmanninn minn: Gerðu það, ég vil losna héðan. Ég vil ekki tala illa um félagið af því að þetta er stór klúbbur með mikla sögu. Það hafa stórir leikmenn spilað fyrir félagið en þetta gekk ekki upp hjá mér. Þetta var auðvitað erfiðasti tíminn á mínum ferli,“ sagði Willian.

Willian þurfti þó ekki að kvarta yfir launum því hann fékk tvö hundruð þúsund pund á viku frá Arsenal eða um 34,4 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×