Enski boltinn

Leikmenn Southampton skiptu um föt úti í bíl til að koma í veg fyrir smit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ralp Hassenhüttl segir að leikmenn Southampton hafi þurft að hafa fataskipti úti í bíl til að koma í veg fyrir kórónuveirusmit.
Ralp Hassenhüttl segir að leikmenn Southampton hafi þurft að hafa fataskipti úti í bíl til að koma í veg fyrir kórónuveirusmit. vísir/getty

Ralph Hassenhüttl, knattspyrnustjóri Southampton, segir að leikmenn og starfsfólk liðsins geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir kórónuveirusmit innan herbúða liðsins.

Nú þegar er búið að fresta tveimur leikjum í ensku úrvalsdeildinni sem áttu að fara fram á öðrum degi jóla. Alls er því búið að fresta 12 leikjum í deildinni á seinustu dögum og vikum vegna veirunnar og hefur það haft áhrif á leikjadagskrá 16 af þeim 20 liðum sem spila í deildinni.

„Hingað til eru engin virk smit innan félagsins,“ sagði Hassenhüttl.

„Við reynum að fylgja reglunum og við reynum að halda okkur við það sem hefur virkað fyrir okkur til þessa til að tryggja öryggi okkar. Eins og er förum við ekki neitt inn saman.“

Stjórinn sagði einnig frá því að leikmenn liðsins hafi þurft að hafa fataskipti úti í bíl áður en æfingar hefjast.

„Við skiptum um föt úti í bíl fyrir æfingu í gær og fórum svo beint heim að henni lokinni. Þetta er klárlega ekki hinn fullkomni undirbúningur fyrir leikmennina, en við erum að reyna að lágmarka tímann sem við eyðum í kringum æfingasvæðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×