Enski boltinn

Foxillur Tuchel: „Þeir neyddu okkur til að spila“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Tuchel á varamannabekknum á Villa Park í gær.
Thomas Tuchel á varamannabekknum á Villa Park í gær. getty/Catherine Ivill

Þrátt fyrir sigurinn á Aston Villa í gær var Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, ekki kátur eftir leikinn og sendi enska knattspyrnusambandinu tóninn.

Chelsea vildi að leik liðsins gegn Wolves 19. desember yrði frestað en varð ekki að ósk sinni. Meiðsli hafa herjað á leikmannahóp Chelsea og þá hafa nokkrir leikmenn liðsins greinst með kórónuveiruna.

Chelsea vann Villa, 1-3, í gær með tveimur mörkum frá Jorginho og einu frá Romelu Lukaku. Þetta var áttundi leikur Chelsea í desember og enn er einn leikur eftir, gegn Brighton á miðvikudaginn.

„Þetta er eins og það er en þetta getur ekki verið rétta leiðin. Þetta er ekki sanngjarnt. Við höfum allir verið í rúminu í tíu daga og spilum við lið sem fengu leikjum frestað og fengu eina viku í undirbúning,“ sagði Tuchel.

„Þeir neyða okkur alltaf til að spila, jafnvel þrátt fyrir covid. Við glímum svo ný meiðsli og það hættir ekkert. Fólkið á skrifstofunni ákveður þetta. Við erum í vandræðum og að leggja mikið á leikmennina okkar. Ég ber mikla virðingu fyrir því sem þeir gerðu. Kannski gerðum við stór mistök með að láta þá spila eftir covid og eina eða tvær æfingar. En enska úrvalsdeildin neyddi okkur til að spila og því spiluðum við.“

Chelsea er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 41 stig, sex stigum á eftir toppliði Manchester City.


Tengdar fréttir

Þurfti á svona frammistöðu að halda

„Ég er ánægður með eigin frammistöðu en ég verð að halda áfram,“ sagði Romelu Lukaku eftir 3-1 sigur Chelsea á Aston Villa. Lukaku var að skora sitt fyrsta mark fyrir Chelsea í deildinni síðan hann skoraði tvennu gegn sama liði þann 11. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×