Enski boltinn

Martial vill fara frá United en engin tilboð hafa borist

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Martial hefur lítið komið við sögu hjá Manchester United á tímabilinu.
Anthony Martial hefur lítið komið við sögu hjá Manchester United á tímabilinu. getty/Matthew Peters

Anthony Martial hefur óskað eftir sölu frá Manchester United. Enn hafa engin tilboð borist í franska framherjann.

Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri United, ræddi um Martial á blaðamannafundi í gær. Hann sagði að Frakkinn hefði tjáð sér að hann vildi fara frá United og nú væri kominn tími fyrir breytingar.

„Hann skýrði út fyrir mér að hann hefði verið hjá United í sjö ár og honum fyndist vera rétti tíminn til að breyta til og fara eitthvert annað,“ sagði Rangnick.

„Það er að vissu leyti skiljanlegt en það er líka mikilvægt að horfa á þetta út frá sjónarmiðum félagsins. Við erum í þremur keppnum á tímum kórónuveirunnar og við erum metnaðarfullir og viljum ná sem lengst.“

Enn hefur ekkert félag sett sig í samband við United og óskað eftir því að kaupa Martial. „Enn sem komið er, og eftir því sem við best vitum, hefur ekkert tilboð borist og svo lengi sem það er þannig verður hann áfram.“

Martial kom til United frá Monaco 2015 og hefur skorað 79 mörk í 268 leikjum fyrir félagið síðan þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×