Enski boltinn

Varnarmaður Aston Villa rifjaði upp þegar innbrotsþjófar reyndu að ræna honum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kortney Hause varð fyrir fólskulegri árás fyrir þremur árum.
Kortney Hause varð fyrir fólskulegri árás fyrir þremur árum. getty/Visionhaus

Kortney Hause, varnarmaður Aston Villa, lenti í ömurlegri lífsreynslu á öðrum degi jóla 2018. Fimm menn brutust þá inn til hans og reyndu að ræna honum.

Hause rifjaði þetta skelfilega atvik upp í heimildamyndinni PowerHouse Journey ft. Kourtney. Á þeim tíma þegar árásin átti sér stað lék Hause sem með Wolves. Hann var ekki í leikmannahóp liðsins í leik á öðrum degi jóla og ákvað að fara til Essex til að verja jólunum með fjölskyldu sinni.

Hause lýsir því hvernig þrjótarnir fimm hafi elt hann heim til hans eftir að hann var að versla í London ásamt vini sínum. Þeir stukku út úr bílnum og einn þeirra sagði hinum að grípa Hause. Hann hélt fyrst að um einhvers konar hrekk væri að ræða en komst fljótlega að því að svo var ekki.

Hause tókst að komast undan en ekki lengi. Einn þrjótanna lamdi hann í höfuðið með glerflösku þannig að hann fékk ljótan skurð.

Eftir þetta tókst Hause að flýja og komst á spítala í nágrenninu. Hann beið inni á spítalanum en þrjótarnir biðu fyrir utan og House óttaðist að einhver þeirra væri með byssu.

„Ég veit þetta hljómar brjálæðislega en ég hélt að þeir myndu brjóta gluggann og þeir myndu skjóta mig. Ég hélt þeir væru með byssu og myndu drepa mig,“ sagði Hause.

Hljóð í sjúkrabíl sem keyrði hjá truflaði þrjótana tímabundið og Hause fékk á endanum hjálp eftir að hann hljóp inn á bráðamóttökuna. Þar var gert að sárum hans.

Hause fór til Villa á láni í janúar 2019. Félagið keypti hann svo frá Wolves um sumarið. Hann hefur aðeins leikið tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Í öðrum þeirra skoraði hann sigurmark Villa gegn Manchester United á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×